Jól

Býr til og selur jólakransa til styrktar Pieta samtökunum

Hjördís Erna Þorgeirsdóttir skrifar
Ásdís Jónsdóttir býr til jólakransa til styrktar góðum málstað.
Ásdís Jónsdóttir býr til jólakransa til styrktar góðum málstað. Ólafur Höskuldur Ólafsson
Ásdís Jónsdóttir nýtur þess að föndra og segir þá iðju veita sér mikla hugarró. Fyrir tveimur árum fór hún af stað með verkefni þar sem hún býr til jólakransa sem hún selur til styrktar Pieta samtökunum, en geðheilbrigðismál eru henni afar hugleikin.

Ég er alin upp inni í Eyjafirði, flutti á Austurland fyrir um 30 árum, fyrst á Egilsstaði og síðan á Reyðarfjörð árið 1995 og bý þar enn,“ segir Ásdís. Hún býr nú ein með kettinum sínum en er þó rík af afkomendum. „Ég bý ein með Mána, kisanum mínum og er því miður öryrki vegna veikinda. Ég er fráskilin og á þrjú uppkomin börn sem eru öll komin með sitt heimili og börn. Tvö þeirra eiga heima hér á Reyðarfirði og eitt í Kópavogi. Ég á einnig sjö barnabörn á aldrinum sex mánaða til níu ára."

Ásdís segist ekki eiga neina eina tiltekna eftirlætisminningu úr barnæsku frá jólunum en minnist þó ákveðinna hefða hvað mat og bakstur varðar. „Ég man svo sem ekki mikið frá barnæsku minni, þegar ég var að alast upp voru börn ekki mikið að atast með í jólaundirbúningi. En svona eitt og eitt kemur upp í hugann eins og að það var alltaf hangikjöt og baunajafningur á aðfangadagskvöld, lambalæri á jóladag og svo var jólatréð skreytt og einnig sett upp jólaskraut á Þorláksmessu, aldrei fyrr. Og auðvitað voru bakaðar 20 sortir af smákökum og nokkrar tertur.“

Fagnar föndri og birtu

Ásdís unir sér vel á þessum tíma árs og fagnar bæði föndrinu og birtunni frá jólaljósunum.

„Mér finnst þetta bara vera uppbrot á hversdagsleikanum og það er aldrei of mikið af fallegum munum og ljósum. Sérstaklega þar sem ég bý og sólin hverfur í þrjá mánuði og sést ekki aftur fyrr en 9. til 11. febrúar.“ Það gefi henni mikið að vinna með höndunum og sé jafnvel ígildi eins konar heilunar. „Jólaföndur, föndur og allt handverk yfirhöfuð er fyrir mig afslöppun og hálfgerð þerapía.“

Það sé þó ýmislegt sem mætti betur fara hvað áherslur á veraldleg gildi varðar. „Nú til dags finnst mér allt of mikið kapphlaup, bæði í gjöfum og einnig mikill metingur fólks. Þú þarft ekki 50 þúsund króna jólagjöf til dæmis. Mér finnst jólin þurfa að vera meira um samveru fólks og að gera vel við sig í mat og drykk. Fallegustu og dýrmætustu jólagjafirnar sem ég fæ er til dæmis eitthvað sem barnabörnin hafa gert sjálf og á ég nokkurt safn af þeim gjöfum sem ég geymi eins og gull væri.“

Ásdís býr til fallega jólakransa. MYND/ÓLAFUR HÖSKULDUR ÓLAFSSON
Frábærar viðtökur

Ásdís er önnum kafin við kransagerð þessa dagana. „Þannig er að fyrir tveimur árum ákvað ég að biðja fólk að gefa mér jólaskraut sem það væri hætt að nota og voru undirtektirnar æðislegar, þar kom fram að ég ætlaði að gera skreytingar og selja til að styrkja góðgerðarsamtök.“

Hún hafi þó ekki getað farið af stað með verkefnið fyrr en í ár. „En vegna breyttra heimilisaðstæðna hafði ég ekki tök á að byrja á þessu fyrr en fyrir þessi jól. Ég ákvað að gera jólakransa með og án ljósa og hafa undirtektirnar vægast sagt verið frábærar. Nú er svo komið að ég er nánast farin að taka á móti sérpöntunum.“

Þá vill Ásdís koma því á framfæri að allur ágóði af verkefninu rennur óskiptur til Pieta. „Ég vil líka taka sérstaklega fram að allur ágóði fer til viðkomandi hjálparsamtaka og ég tek ekkert fyrir vinnuna mína,“ segir Ásdís. „Ég valdi Pieta samtökin af því þetta málefni stendur mér nær þar sem ég er bæði þunglyndis- og kvíðasjúklingur og hef lent í mörgum áföllum um ævina.“

Það sé í nógu að snúast um þessar mundir en á næsta ári muni hún hugsanlega færa út kvíarnar. „Eins og ég segi hef ég meira en nóg að gera en hver veit, kannski á næsta ári geri ég meira úr þessu og stofna kannski sölusíðu.“

Ásdís er þakklát þeim sem hafa lagt henni lið. „Ég vil í koma á framfæri þakklæti til allra sem hafa styrkt þetta verkefni mitt, án ykkar væri þetta ekki hægt. Hárstofa Sigríðar á Reyðarfirði svo og Ólafur Höskuldur Ólafsson á Reyðarfirði eiga bestu þakkir mínar skildar.“






×