Körfubolti

ESA hefur lokað málinu gegn Körfu­knatt­leiks­sam­bandi Ís­lands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úr leik í Domino´s deild karla í körfubolta.
Úr leik í Domino´s deild karla í körfubolta. Vísir/Daníel
EFTA Surveillance Authority, sem er skammstafað ESA, sættir sig við þær breytingar sem Körfuknattleikssamband Íslands hefur gert á reglum um erlenda leikmenn. Málið gegn KKÍ heyrir því sögunni til.

ESA var að skoða betur reglur um hámark fjölda erlendra körfuboltaleikmanna sem var heimilt er að taka þátt í opinberum keppnisleikjum á Íslandi. Málinu er nú lokið en þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Íslensku liðin geta nú verið með eins marga evrópska körfuboltamenn og þeir vilja en það var ekki raunin þegar málið kom inn á borð ESA.

Aðeins einn erlendur leikmaður mátti vera á vellinum í einu í opinberum keppnisleikjum, þar til í ágúst í fyrra. ESA fékk kvörtun vegna þessara reglna og komst að þeirri niðurstöðu að takmörkun af þessu tagi takmarki frjálst flæði vinnuafls og leiði til mismununar.

 

Körfuknattleikssamband Íslands (KKÍ) ákvað að breyta kerfinu. EES ríkisborgarar eru nú undanþegnir reglunni og hafa sömu réttindi og íslenskir ríkisborgarar þegar kemur að leikmannavali í opinberlega skipulögðum körfuknattleikjum.

 

ESA hefur komist að þeirri niðurstöðu að þessar breytingar tryggi jafnræði ríkisborgara EES, að þeir njóti jafnræðis og ferðafrelsis á EES svæðinu til jafns við aðra EES borgara, og hefur því lokað málinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×