Innlent

Könnunin stað­festi stöðug við­horf um stað­setningu flug­vallarins

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Njáll Trausti Friðbertsson er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Njáll Trausti Friðbertsson er þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Fréttablaðið/Ernir
„Stuðningur við að hafa flugvöllinn í Vatnsmýri hefur verið langvarandi og stöðugur,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og annar tveggja formanna Hjartans í Vatnsmýrinni. Hann segir nýja könnun Fréttablaðsins, sem fjallað var um í blaðinu í gær, í rauninni bara staðfesta hann enn og aftur.

„Það eru ekki margar jafn hreinar skoðanir í samfélaginu og um flugvöllinn í Vatnsmýri. Tölurnar eru í rauninni ótrúlega stöðugar þrátt fyrir áróðursstríð borgarinnar í málinu,“ segir Njáll Trausti.

Aðspurður um þær athuganir sem samgönguráðherra hyggst láta gera í Hvassahrauni segist Njáll litla trú hafa á Hvassahrauni sem raunhæfum kosti, ekki í náinni framtíð alla vega.

Nefnd sem Ragna Árnadóttir stýrði og skilaði skýrslu 2016 taldi Hvassahraun fýsilegasta kost fyrir nýjan flugvöll. Njáll Trausti segir að niðurstaða Rögnunefndarinnar segi ekki nema hálfa sögu því nefndin hafi tekið núverandi staðsetningu í Vatnsmýri út fyrir sviga sem valdi þeim útbreidda misskilningi að Hvassahraun sé talinn æskilegri kostur en Vatnsmýrin.

„Í kjölfar undirskriftasöfnunarinnar sem við stóðum fyrir 2013 var ákveðið að fresta því að norður-suðurbrautin hyrfi af skipulagi árið 2016 til ársins 2022. „Nú stöndum við í rauninni á sama tímapunkti og við stóðum 2013,“ segir Njáll Trausti. Stjórnvöld hafi ekki nýtt þann aukna frest sem veittur var til að tryggja stöðuna. Á meðan ríki stöðug óvissa og þeirri óvissu fylgi algert stopp í bæði uppbyggingu og viðhaldi. Njáll Trausti tekur flugstöðina í Vatnsmýri sem dæmi og kallar þjóðarskömm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×