Körfubolti

Íslandsmeistararnir sækja sér kana í KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kiana Johnson í leik á móti Val á síðustu leiktíð. Nú færir hún sig úr Vesturbænum yfir á Hlíðarenda.
Kiana Johnson í leik á móti Val á síðustu leiktíð. Nú færir hún sig úr Vesturbænum yfir á Hlíðarenda. vísir/bára

Kiana Johnson hefur gert samning við Íslandsmeistara Vals um að spila með liðinu í Domino´s deild kvenna í körfubolta á næsta tímabili.

Kiana þekkir vel til íslenska boltans því hún spilaði með KR-liðinu á síðustu leiktíð og var þá með með 23,2 stig, 10,4 fráköst, 7,3 stoðsendingar og 3,4 stolna bolta að meðaltali í leik.

KR-ingar ákváðu hins vegar að semja við Danielle Victoriu Rodriguez sem hefur spilað með Stjörnunni undanfarin ár.

Kiana Johnson er 25 ára leikstjórnandi sem er að fara að spila sitt fjórða tímabil sem atvinnumaður í Evrópu. Hún spilaði fyrst tvö ár í finnsku deildinni áður en hún færði sig yfir til Íslands.

Kiana Johnson átti í fyrra einn rosalegasta leik í sögu kvennakörfunnar á Íslandi þegar hún var með 50 stig, 16 fráköst og 10 stoðsendingar í sigri á Breiðabliki í Smáranum.

Valsliðið tapaði aðeins tveimur leikjum í fyrra eftir að liðið fékk Helenu Sverrisdóttir til sín og þeir voru báðir á móti KR-liðinu með Kiönu Johnson innanborðs

„Við erum full tilhlökkunar við að bæta Kiönu í hópinn. Hún er leikmaður sem við þekkjum vel eftir að hafa leikið 9 leiki við KR liðið á síðustu leiktíð þar sem hún gerði okkur lifið leitt. Kiana mun leika lykilhlutverk á báðum endum vallarins og vonandi hjálpa okkur í áttina að frekari velgengni,“ sagði Darri Freyr Atlason í fréttatilkynningu frá Val.

Þar var einnig stutt viðtal við Kiönu sjálfa.

„Ég þekki liðið og stelpurnar nokkuð vel enda spilaði ég við þær mörgum sinnum á síðasta tímabili. Eins og hópurinn lítur út og þær stelpur sem hafa bæst við er ég sannfærð um að við getum náð góðum árangri í vetur,“ sagði Kiana Johnson.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.