Innlent

Uppnám á Keflavíkurflugvelli vegna falskra Fabergé-eggja

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Flugstöðin var rýmd vegna málsins í dag. Myndin er úr safni.
Flugstöðin var rýmd vegna málsins í dag. Myndin er úr safni. Vísir/vilhelm

Mikill viðbúnaður var á Keflavíkurflugvelli nú síðdegis vegna grunsamlegs hlutar sem fannst í farangri. Engin hætta reyndist þó á ferðum en við nánari skoðun reyndist um eftirlíkingar af svokölluðum Fabergé-eggjum að ræða.

Mbl greindi fyrst frá málinu nú á fimmta tímanum en Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri á Suðurnesjum segir í samtali við Vísi að útkallið hafi borist lögreglu á fjórða tímanum.

Grunsamlegur hlutur hafi fundist í farangri farþega sem millilenti í Leifsstöð. Farið hafi verið eftir verklagi, gripið til rýmingar í flugstöðinni og farangurinn skoðaður nánar. Þá hafi sérsveit ríkislögreglustjóra og sprengjusveit Landhelgisgæslu verið kölluð út en allt miði þetta að því að gæta fyllsta öryggis. „Niðurstaðan var sem betur fer sú að það var ekkert hættulegt,“ segir Ólafur Helgi.

Í fyrstu fréttum af málinu var talið að um hefði verið að ræða babúskur, rússneskar tréfígúrur sem raðast saman hver inn í aðra. Grunsamlegi hluturinn reyndist hins vegar fáeinar eftirlíkingar af Fabergé-eggjum, gimsteinaskreyttum gulleggjum sem eiga rætur að rekja til Sankti Pétursborgar í Rússlandi.

Aðgerðum á flugvellinum lauk snemma á fimmta tímanum og málinu þar með lokið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.