Erlent

Macron reyndi að höfða til Donalds Trump við minningarathöfn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Trump og Macron hittust í Frakklandi.
Trump og Macron hittust í Frakklandi. Nordicphotos/AFP

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, ræddi um ágæti alþjóðasamstarfs í ræðu sinni við minningarathöfn í Colleville-sur-Mer í gær og reyndi þannig, samkvæmt The Guardian, að höfða til Donalds Trump Bandaríkjaforseta sem einnig var viðstaddur athöfnina.

Fjöldi fólks var saman kominn á staðnum til þess að minnast þess að 75 ár eru nú liðin frá innrás Bandamanna í Normandí í síðari heimsstyrjöldinni. Nærri 10.000 bandarískir hermenn sem fórust í innrásinni eru grafnir í Colleville-sur-Mer.

Trump hefur ítrekað beint spjótum sínum að bæði Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu (NATO). Hann hefur til dæmis átt í tolladeilum við ESB og kallað NATO úrelt.

„Við munum aldrei hætta að berjast fyrir bandalagi frjálsra þjóða. Það gerðu sigurvegararnir [í stríðinu] er þeir stofnuðu Sameinuðu þjóðirnar og NATO. Það er það sem leiðtogar Evrópu gerðu nokkrum árum síðar þegar Evrópusambandið var stofnað. Lærdómurinn sem draga má af atburðunum í Colleville-sur-Mer er augljós. Frelsið og lýðræðið er óaðskiljanlegt,“ sagði franski forsetinn í ræðu sinni.

Trump ræddi ekki um slíkt samstarf í ræðu sinni heldur lofaði hugrekki þeirra og dirfsku sem börðust í Normandí. „Þetta mikla hugrekki má rekja til mikillar trúar. Þau komu hingað og björguðu frelsinu. Svo fóru þau heim og sýndu okkur um hvað frelsið snýst,“ sagði Trump og bætti við:

„Enn öflugri en bandarísk vopn reyndist styrkur hins bandaríska hjarta. Þetta fólk óð í gegnum eld og brennistein, knúið áfram af afli sem ekkert vopn getur eyðilagt; sterkri föðurlandsást frjálsrar, stoltar og fullvalda þjóðar.“ Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.