Körfubolti

„Milwaukee hatar Drake“ í fyrirsögn í staðarblaðinu í Milwaukee

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hvor er þjálfarinn? Drake og Nick Nurse á hliðarlínunni.
Hvor er þjálfarinn? Drake og Nick Nurse á hliðarlínunni. Getty/Vaughn Ridley

Tónlistamaðurinn Drake hefur verið afar áberandi á hliðarlínunni í leikjum Toronto Raptors í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta en núna finnst mörgum hann hafa gengið allt of langt. Ekki síst það fólk sem heldur með liði Milwaukee Bucks.

Toronto Raptors er tveimur sigrum frá því að komast í lokaúrslit NBA deildarinnar í fyrsta sinn þar sem meistarar Golden State Warriors bíða. Milwaukee Bucks vann tvo fyrstu leikina á sínum heimavelli en Toronto náði að nafna með tveimur sigurleikjum á sínum heimavelli.Þeir sem hafa séð leiki Toronto Raptors í úrslitakeppninni og þekkja ekki allt of vel til gætu ruglast á því hvor væri þjálfari liðsns, Drake eða þjálfarinn Nick Nurse.

Drake stendur oftar en ekki á hliðarlínunni þar sem hann hvetur liðið sitt áfram, gefur leikmönnum fimmur og sást nú síðast nudda axlir þjálfarans í miðjum leik. Hann elskar sviðsljósið og myndavélarnar eru alltaf á honum.

Stuðningsfólk Milwaukee Bucks var ekki mikið að pæla í látalátum Drake þegar lið þeirra var 2-0 yfir í einvíginu en eftir tvö töp í röð eru margir farnir að pirra sig út í hann.

Það er einkum það þegar hann hló hátt þegar Giannis Antetokounmpo, aðalstjarna Milwaukee Bucks, klikkaði á tveimur vítaskotum í síðasta leik. Það má sjá það hér fyrir neðan.Í framhaldinu er Drake orðinn óvinsælasti maðurinn í Milwaukee og blöðin gera ekkert annað en að ýta undir þá ímynd af honum.

„Milwaukee hatar Drake,“ stóð meðal annars í fyrirsögn Milwaukee Journal Sentinel og þar bætti blaðamaðurinn við: „Maður sem á ekkert í Toronto liðinu en fær engu að síður leyfi til að vera út um allt á vellinum.“

Í greininni er líka sagt frá því að stuðningsfólk Milwaukee Bucks er að reyna að fá tónlist Drake bannaða hjá útvarpsstöðvum á svæðinu.

Leikur númer fimm er í kvöld og mun ráða miklu um það hvort liðið fer áfram. Að þessu sinni er leikið í Milwaukee og því ekki líklegt að Drake þori að láta sjá sig á hliðarlínunni.
NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.