Bakþankar

Tilfinningatips

Bjarni Karlsson skrifar

Núna er sumarið 2019 að skolast hingað upp. Sumur eru björt, ilmandi og máttug. Hvað skyldi maður eiga eftir að lifa þau mörg? Réttast að vera ekki í neinum tryllingi heldur gera þessa fáu sumardaga að endurnærandi hvíld og kærum minningum. Ég veit ekki margt. Samt veit ég að tilfinningar eru eins og ský. Þú horfir ekki á ský og segir: „Þetta er rangt ský!“ Tilfinningar eru líka eins og draumar. Ef vinur þinn segir þér draum ansar þú ekki: „Ég held að þetta sé réttur draumur.“ Ský, draumar og tilfinningar eru ekki réttar eða rangar. Samt eru þetta allt atriði sem skipta okkur máli í daglegu lífi.

Ef við viljum forðast trylling en njóta sumars þarf að gæta sín á tvennu varðandi tilfinningar: Maður skyldi hvorki bæla þær né fleygja þeim í andlit á fólki. Við höfum alls konar tilfinningar, velkomnar og óvelkomnar. Tilfinningalegt jafnvægi skapast þegar þú viðurkennir með sjálfum þér hvernig þér líður og unir þeirri staðreynd að annað fólk ber ekki ábyrgð á líðan þinni og hugsunum. Samt þurfum við öll að tala um tilfinningar okkar. Þegar ég geri það hefur mér reynst vel að velja persónu sem málið varðar, leggja tilfinninguna á borðið og láta eftirfarandi fylgja: „Þetta er mín tilfinning. Hún er ekki rétt og heldur ekki röng. Hún bara er. Ég vil ekki fela þessa tilfinningu fyrir þér og ég ætla heldur ekki að henda henni í andlitið á þér. Þess í stað tek ég ábyrgð á eigin líðan með því að leggja hana fram. Takk fyri að horfa og hlusta.“ – Og sannaðu til; þegar við gerum þetta, segjum hug okkar en sleppum allri ásökun og sektarkennd, fer lífið að vera líkt og íslenska sumarið; óútreiknanlegt í sjálfu sér en þó alltaf bjart, svalt og ilmandi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.