Erlent

New Horizons flaug framhjá Ultima Thule

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mynd sem sýnir ferðalag New Horizons. Jörðin er um það bil fyrir miðju myndar.
Mynd sem sýnir ferðalag New Horizons. Jörðin er um það bil fyrir miðju myndar. Mynd/NASA

Bandaríska geimfarið New Horizons átti í dag stefnumót við frosna fyrirbærið Ultima Thule í 6,5 milljarða kílómetra fjarlægð frá jörðu. Ekkert geimfar hefur áður kannað fyrirbæri í álíka fjarlægð frá heimkynnum mannsins. BBC greinir frá.



Vísindamenn NASA fengu staðfestingu á því í dag að New Horizons hafði flogið framhjá fyrirbærinu MU69, sem kallað er Ultima Thule, í Kuipers-beltinu, yst í sólkerfinu okkar. Safnaði geimfarið miklum upplýsingum um fyrirbærið auk ljósmynda. Munu vísindamenn taka á móti gögnunum og vinna úr þeim svo varpa megi frekar a ljósi á fyrirbærið.



Áður en New Horizons komst í tæri við MU69 voru vísbendingar um að fyrirbærið væri í raun tvö fyrirbæri sem annað hvort snertast eða eru afar nálægt hvor öðru. Vonast er til þess að gögnin sem New Horizons safnaði muni meðal annars skera úr um þetta.



New Horizons var skotið á loft árið 2006 og árið 2015 varð það fyrsta geimfarið til að fljúga fram hjá Plútó. Sendi það þaðan fyrstu skýru myndirnar sem menn hafa fengið af yfirborði dvergreikistjörnunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×