Innlent

Veðurfræðingur segir vetrinum lokið og spáir sólríku veðri

Birgir Olgeirsson skrifar
Svona lítur spákortið út fyrir morgundaginn.
Svona lítur spákortið út fyrir morgundaginn.
Spáð er sólríku veðri víðast á nokkrum stöðum á landinu á morgun og laugardag. Búast má þó við talsverðri dægursveiflu á hita, hann gæti orðið ágætur yfir daginn þar sem sólin nær að skína en næturnar verða kaldar.

Haraldur Eiríksson veðurfræðingur segir að vetrinum sé lokið veðurfarslega séð og vorið tekið við, þó svo að 21 dagur sé í sumardaginn fyrsta 25. apríl næstkomandi.

Hann segir að vorið getið boðið upp á slæma kafla veðurfarslega séð en það sé hins vegar ekkert í uppsiglingu næstu daga.

Í nótt er búist við norðaustan átt, 3 til 8 metrum á sekúndu, en 8 – 13 metrum á sekúndu norðvestanlands síðdegis og einnig við suðausturströndina. Skýjað norðan til á landinu og sums staðar lítils háttar slydda eða snjókoma en bjartviðri syðra. Hiti 1 til 7 stig, en víða næturfrost.

Á laugardag:

Hæg austanátt, en 8-13 m/s við suðurströndina. Léttskýjað vestan til á landinu, annars skýjað og stöku slydduél á suðaustanlands. Hiti 1 til 6 stig að deginum, en í kringum frostmark NA-lands.

Á sunnudag og mánudag:

Austan 3-8 m/s en 8-13 m/s syðst. Léttskýjað um landið norðvestanvert, annars skýjað að mestu og stöku él á Suðausturlandi. Hiti 1 til 6 stig að deginum, en í nálægt frostmarki norðaustanlands.

Á þriðjudag og miðvikudag:

Hæg austlæg átt og léttskýjað, en austan 8-13 með suðurströndinni og skýjað. Hiti breytist lítið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.