Innlent

Hvergi bangin og ætlar að styrkja Litlu hafpulsuna með gulli

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Steinnun Gunnlaugsdóttir vonast til að sá sem olli skemmdaverkunum stigi fram. Henni dettur ekki í hug að kæra viðkomandi.
Steinnun Gunnlaugsdóttir vonast til að sá sem olli skemmdaverkunum stigi fram. Henni dettur ekki í hug að kæra viðkomandi. FBL/Ernir

Steinunn Gunnlaugsdóttir listakona segir að það væri gaman ef sá sem olli skemmdunum á Litlu hafpulsunni stigi fram og útskýrði hvers vegna. Henni dettur ekki í huga að kæra nokkurn fyrir skemmdaverk og setur fyrirvara við það að um skemmdarverk sé að ræða þó hún telji það líklegt.

„Þetta er hluti af því að setja listaverk í almannarými,“ segir Steinunn.

Borgarbúar vöknuðu við það að Litla hafpulsan, listaverk sem staðið hefur í Reykjavíkurtjörn frá 26. október, var ekki með fulla reisn. Steinunn segist hafa tekið tíðindunum með stóískri ró.

„Ég bjóst ekkert endilega við að þetta myndi lifa svona lengi. Þetta er í almannarými, mjög áberandi og hefur vakið mjög mikla athygli.“

Hér sést Litla Hafpulsan á Reykjavíkurtjörn í morgun. Vísir/Vilhelm

Bakgrunnur Steinunnar er úr veggalist, graffíti.

„Svo ég er vön því að ef maður spreyjar eitthvað á vegg sem er mjög flott, þá spreyjar bara einhver eða málar yfir það.“

Til stóð að taka Litlu hafpulsuna niður nú í desember. Steinunn hefur fengið boð frá Danmörku um að birta listaverkið þar. Hún segir tíðindi dagsins ekki hafa áhrif á þau áform. Hún horfir til japanskrar hefðar þegar hún veltir viðgerð á listaverkinu fyrir sér.

„Þegar leirker eða bollar brotna í Japan þá heiðrarðu brotið með því að setja gull í sárið,“ segir Steinunn. Það tengist þeirri speki að hið gamla sé fallegt, það sem hafi gengið í gegnum lífsreynslu sé verðmætara fyrir vikið.

„Þetta er náttúrulega bara aflimun, „clear cut“, og dálítið leiðinlegt að missa þennan hluta - þessa fullu reisn sem er bara hálf fyrir vikið. En ég myndi samt segja að betri helmingurinn væri eftir.“

Hér sést Litla Hafpulsan á Reykjavíkurtjörn í fyrradag. Vísir/Vilhelm

Steinunn hefur upptökur úr vefmyndavél Mílu undir höndum. Um er að ræða timelapse í nótt þar sem birtast myndir á tveggja mínútna fresti. Því miður sést ekki á upptökunni hvað verður til þess að listaverkið skemmist. Hún telur líklegast að það hafi verið skemmd. Listaverkið er úr gegnheilu frauðplasti sem er húðað með sentimetra þykkri plastskel. Verkið er því ekki glerhart.

„Ef einhver hefur kastað mjög þungum steini beint á hana þá hefði hún borið þess merki,“ segir Steinunn.

„Mér myndi ekki detta í hug að kæra einhvern fyrir þetta. En það væri gaman ef einhver stigi fram og útskýrði af hverju viðkomandi gerði þetta.“


Tengdar fréttir

Litla hafpulsan hefur misst reisn sína

Svo virðist sem skemmdir hafi verið unnar á listaverkinu Litlu hafpulsunni í Tjörninni eða verkið hafi farið illa í vindi í höfuðborginni í nótt.

Litla hafpulsan í tjörninni vekur athygli

Listaverkið Litla Hafpulsan var afhjúpað í gær og stendur í Tjörninni í Reykjavík. Listakonan Steinunn Gunnlaugsdóttir segir pulsuna vera myndlíkingu fyrir lýðræðið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.