Veiði

Bókin Sögur af veiðiskap er komin út

Karl Lúðvíksson skrifar
Veiðimenn hafa alltaf gaman af veiðisögum
Veiðimenn hafa alltaf gaman af veiðisögum

Veiðimenn gera víst fátt skemmtilegra tengt veiðiskap yfir vetrarmánuðina heldur en að lesa bækur um veiði og bækur um veiðisögur eru alltaf vinsælar í jólapakka veiðimanna.

Við fögnum því alltaf þegar það koma út bækur um veiði og nú er bókin Undir sumarhimni - Sögur af veiðiskap eftir Sölva Björn Sigurðsson komin út hjá Sölku. Í henni er rætt við fjölmarga þaulreynda veiðimenn en meðal viðmælenda eru Bjarni Brynjólfsson, Ólafur Tómas Guðbjartsson, Ragnheiður Thorsteinsson og Einar Falur Ingólfsson. Öll deila þau skemmtilegum sögum af árbakkanum, sögum af þeim stóru sem sluppu, sögum af fiskum á óvæntum stöðum, sögum af því þegar allt gengur upp og því þegar ekkert gengur upp, sögum af frábærum félagsskap og ævintýralegu umhverfi. Bókina prýðir fjöldi ljósmynda og ekki er ósennilegt að hún muni leynast undir jólatrjám fjölmargra veiðimanna og öðrum unnenda góðra sagna þessi jól.

Að veiða er að segja sögur. Um leið og lína lendir á vatnsfleti hefst sagan og engin leið er að spá fyrir um sögulok. Gleðistund á vatnsbakka hverfur ekki og raunar má segja að sorg og sút hverfi eins og dögg fyrir sólu þegar fiskur tekur. Fyrir sumum er veiðiskapurinn sálarró og kyrrð, hjá sumum snýst hann um spennuna. Hjá flestum er hann sambland af hvoru tveggja. Að vera veiðimaður er endalaus tilhlökkun. Undir sumarhimni - sögur af veiðiskap gerir biðina eftir næstu veiðiferð á þessum dimmu vetrarmánuðum sem við eigum í vændum þolanlegri.

Sölvi Björn Sigurðsson er rithöfundur og hefur sent frá sér skáldsögur og ljóð við góðan orðstír auk þess sem hann hefur starfað við þýðingar. Hann hefur skrifað lengi um veiði og hefur sjálfur verið veiðimaður frá blautu barnsbeini.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.