Húsasmiðjan hefur ákveðið að innkalla barnarólur vegna ófullnægjandi öryggismerkinga. Á vef Neytendastofu segir að í leiðbeiningum frá framleiðanda sem fylgja með rólunni hafi komið fram að varan var fyrir börn eldri en 3 ára og undir 40kg.
Kom síðar í ljós að þessar merkingar voru ekki réttar, auk þess sem að það vantaði viðvörunarmerkingarnar. Barnarólan er ætluð börnum yngri en þriggja ára og undir 40 kg. Rólurnar voru seldar í þremur litum; bláum, rauðum og gulum og er vörunúmer rólunnar er 3901167
„Húsasmiðjan hefur öryggi viðskiptavina ávallt í fyrirrúmi og því hefur verið tekin ákvörðun í samvinnu við Neytendastofu að hætta allri sölu á vörunni og innkalla hana,“ segir á vef Neytendastofu. Þar er þess jafnframt getið að Húsasmiðjan hvetji alla viðskiptavini sem keypt hafa þessa barnarólu um að skila henni í næstu Húsasmiðjuverslun og fá hana endurgreidda.
„Húsasmiðjan biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.“
Húsasmiðjan innkallar barnarólur
