Enski boltinn

Markvörður Watford vorkennir Petr Cech

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Petr Cech.
Petr Cech. Vísir/Getty

Það eru breyttir tímar hjá Arsenal liðinu eftir að Unai Emery tók við af Arsene Wenger sem knattspyrnustjóri. Fátt hefur hins vegar breyst eins mikið og lífið hjá markverðinum Petr Cech.

Svo erfitt hefur verið fyrir Petr Cech að aðlagast nýjum leikstíl Arsenal liðsins að einn kollegi hans í ensku úrvalsdeildinni segist hreinlega vorkenna tékkneska markverðinum.

Unai Emery vill að Petr Cech spili boltanum á varnarmenn sína við hvert tækifæri en það hefur oft reynst honum mjög erfitt.Petr Cech hefur nefnilega gert mörg mistök í fyrstu leikjunum og oftar en ekki sent boltann á mótherja sem eru staddir við vítateiginn og um leið komnir í úrvalsfæri. Ein sending Cech á móti Manchester City endaði líka næstum því í hans eigin marki.

„Cech er einn af bestu markvörðunum í sögu ensku úrvalsdeildarinnar en þetta er ekki hans leikur,“ sagði Ben Foster, markvörður Watford, í viðtali við BBC Radio 5 live.

Ben Foster og félagar í Watford hafa unnið fjóra fyrstu leiki sína í ensku úrvalsdeildinni og er með fullt hús eins og Liverpool og Chelsea.

„Allan sinn feril hefur hann spilað ákveðinn fótbolta og núna á lokakafla ferilsins þá þarf hann allt í einu að breyta sínum stíl. Hans styrkleiki hefur alltaf verið að verja boltann en nú er þróun fótboltans þannig að allir markverðir verða að breyta sér í svona Ederson-týpu,“ sagði Ben Foster.

„Fyrir marga markemnn þá er þetta allt annað en auðvelt. Það mun taka Cech tíma að venjast þessu og ég vorkenni honum,“ sagði  Ben Foster.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.