Handbolti

Liðsstjóri danska liðsins GOG gengur um í stuttbuxum af Snorra Steini

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson í leik með Valsliðinu í fyrravetur.
Snorri Steinn Guðjónsson í leik með Valsliðinu í fyrravetur. Vísir/Andri Marinó

Óðinn Þór Ríkharðsson hefur hafið sitt fyrsta atvinnumannatímabil með danska liðinu GOG en FH-ingurinn gekk til liðs við danska félagið í sumar.

GOG er til alls líklegt í vetur og íslenski hornamaðurinn fær þarna frábært tækifæri til að stimpla sig enn frekar inn.

Óðinn Þór fjallar um fyrstu dagana hjá GOG í viðtali við Ívar Benediktsson í Morgunblaðinu í dag og segir þar meðal annars mjög skemmtilega sögu af sporum sem annar íslenskur landsliðsmaður markaði hjá félaginu.

Óðinn segir nefnilega frá því í þessu viðtali að liðsstjóri GOG liðsins sé mikill aðdáandi Snorra Steins Guðjónssonar.

Snorri Steinn spilaði með GOG Svendborg TGI frá 2007 til 2009 en á þeim árum vann hann meðal annars Ólympíusilfur með íslenska landsliðinu og var einn af markahæstu leikmönnum á Ólympíuleikunum í Peking. Snorri Steinn snéri síðan aftur til GOG eftir Ólympíuleikana í London 2012 og spilaði þar í tvö ár.

Umræddur liðstjóri GOG gengur meðal annars um á æfingum og í leikjum í stuttbuxum af Snorra Steini. „Hann er alltaf að tala um Snorra sem er honum afar minnisstæður,“ sagði Óðinn Þór í viðtalinu í Morgunblaðinu.

Snorri Steinn Guðjónsson fór frá GOG til Frakklands og var þar með tveimur liðum í þrjú tímabil en er nú á öðru ári sem þjálfari Vals.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.