Handbolti

Liðsstjóri danska liðsins GOG gengur um í stuttbuxum af Snorra Steini

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson í leik með Valsliðinu í fyrravetur.
Snorri Steinn Guðjónsson í leik með Valsliðinu í fyrravetur. Vísir/Andri Marinó
Óðinn Þór Ríkharðsson hefur hafið sitt fyrsta atvinnumannatímabil með danska liðinu GOG en FH-ingurinn gekk til liðs við danska félagið í sumar.

GOG er til alls líklegt í vetur og íslenski hornamaðurinn fær þarna frábært tækifæri til að stimpla sig enn frekar inn.

Óðinn Þór fjallar um fyrstu dagana hjá GOG í viðtali við Ívar Benediktsson í Morgunblaðinu í dag og segir þar meðal annars mjög skemmtilega sögu af sporum sem annar íslenskur landsliðsmaður markaði hjá félaginu.

Óðinn segir nefnilega frá því í þessu viðtali að liðsstjóri GOG liðsins sé mikill aðdáandi Snorra Steins Guðjónssonar.

Snorri Steinn spilaði með GOG Svendborg TGI frá 2007 til 2009 en á þeim árum vann hann meðal annars Ólympíusilfur með íslenska landsliðinu og var einn af markahæstu leikmönnum á Ólympíuleikunum í Peking. Snorri Steinn snéri síðan aftur til GOG eftir Ólympíuleikana í London 2012 og spilaði þar í tvö ár.

Umræddur liðstjóri GOG gengur meðal annars um á æfingum og í leikjum í stuttbuxum af Snorra Steini. „Hann er alltaf að tala um Snorra sem er honum afar minnisstæður,“ sagði Óðinn Þór í viðtalinu í Morgunblaðinu.

Snorri Steinn Guðjónsson fór frá GOG til Frakklands og var þar með tveimur liðum í þrjú tímabil en er nú á öðru ári sem þjálfari Vals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×