Erlent

Skorar á þjóðarleiðtoga að skafa af sér kílóin

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tongverjar eru sjöunda feitasta þjóð í heimi.
Tongverjar eru sjöunda feitasta þjóð í heimi. ESA

Forsætisráðherra eyríkisins Tonga ætlar sér að skora á aðra þjóðarleiðtoga Kyrrahafsríkja í þyngdartapskeppni. Ætlunin með keppninni að sögn forsætisráðherrans, Akilisi Pohiva, er að vekja athygli á heilsusamlegu líferni en ofþyngd er mikið heilsufarsvandamál meðal barna í Kyrrahafsríkjum.

Pohiva segist ætla að stinga upp á keppninni, sem myndi ganga út á að skafa af sér sem flest kíló á einu ári, á sameiginlegum fundi leiðtoganna í Nárú í september. 

Akilisi Pohiva, forsætisráðherra Tonga. AAP

Hann segir að fundurinn sé ágætis upphafspunktur keppninnar því hann er árlegur. Leiðtogarnir geti því aftur stigið saman á vigtina að ári liðnu og mælt árangurinn.

„Við Kyrrahafsleiðtogarnir hittumst og tölum og tölum um vandamálin en þrátt fyrir það virðist lítið gerst, þetta virðist ekki virka,“ er haft eftir forsætisráðherranum á vef Guardian. „Þegar leiðtogarnir hafa tamið sér rétta hugarfarið munu þeir geta hvatt þjóðir sínar til að fylgja í þeirra fótspor,“ bætir Pohiva við.

Meira en helmingur - og í sömu tilfellum næstum 90% - íbúa hið minnsta 10 Kyrrahafsríkja teljast of þungir samkvæmt tölum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Samkvæmt staðreyndabók CIA, sem tekur saman töluleg gögn um heimsbyggðina, voru 10 feitustu þjóðir heims allar í Kyrrahafi.

Þar er Nárú efst á lista en um 61% allra fullorðinna í landinu eru í ofþyngd. Ástæðurnar fyrir vandanum eru margþættar en einhverjir hafa bent á innreið unninna matvæla, á kostnað innlendrar, næringaríkrar framleiðslu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.