Veiði

Tvær laxveiðiár komnar yfir 2.000 laxa

Karl Lúðvíksson skrifar

Landssamband Veiðifélaga uppfærði listann yfir aflatölur laxveiðiánna í gærkvöldi og þar sést að sumar árnar eru að eiga mjög gott sumar.

Tvær ár á listanum eru komnar yfir 2.000 laxa en það eru Þverá/Kjarrá sem trónir ennþá á toppnum á listanum með 2.111 laxa og þar með er áin komin yfir heildartöluna í fyrra sem var 2.060 laxar.  Veiðin er ennþá góð og síðsumarið oft drjúgt í Kjarrá svo þessi tala gæti hugsanlega endað í 2.600 löxum samkvæmt mönnum sem þekkja árnar vel.  Eystri Rangá er síðan að eiga allsvaðalalega flotta endurkomu eftir rólega veiði í fyrra en heildarveiðin þá var ekki nema 2.143 laxar sem er ekki mikil veiði í Eystri ánni.  Veiðin núna er komin í 2.002 laxa og nóg eftir af veiðitímanum og mikið af laxi í ánni.

Norðurlandið er ennþá rólegt og ólíklegt að það breytist en það er gaman að sjá að veiðin í Selá og Hofsá er að koma til en heildarveiðin í Selá er 863 á móti 937 löxum í fyrra og síðsumarsveiðin þar oft mjög góð.  Hofsá er komin í 444 laxa en heildarveiðin í fyrra var 589 laxar.  Árnar á vesturlandi eru svo til allar að eiga ágætt sumar og nú þegar hafa Þverá og Kjarrá ásamt Haffjarðará farið yfir veiðina í fyrra.

Topp fimm listinn er:

1. Þverá/Kjarrá  2.111 laxar
2. Eystri Rangá  2.002 laxar
3. Ytri Rangá  1.892 laxar
4. Miðfjarðará  1.707 laxar
5. Norðurá  1.407 laxar

Listann í heild sinni má finna á www.angling.is
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.