Umfjöllun og viðtöl: Selfoss 26-25 Haukar | Ótrúlegar lokamínútur á Selfossi

Einar Sigurvinsson skrifar
Haukur Þrastarson var stórkostlegur á lokakaflanum
Haukur Þrastarson var stórkostlegur á lokakaflanum vísir/stefán
Selfoss sigraði Hauka með einu marki, 26-25, í æsispennandi leik á Selfossi í kvöld. 

Það var ljóst frá fyrstu mínútu að bæði lið ætluðu sér sigur. Haukar spiluðu gífurlega stífa vörn og höfðu góð tök á skyttum Selfyssinga. Haukar byrjuðu leikinn betur og komust tveimur mörkum yfir, 3-1. Selfyssingar voru þó hvergi nærri hættir, höfðu stemninguna í húsinu með sér og skoruðu næstu þrjú mörk og komust yfir, 4-3.

Selfoss náði að halda sínu forskoti mestan hluta fyrri hálfleiksins. Mest var forysta Selfyssinga fjögur mörk, 11-7, á 22. mínútu. Þá tók Gunnar leikhlé fyrir Hauka og var allt annað að sjá hans menn í kjölfarið. Haukar skoruðu næstu fjögur mörk og jöfnuðu leikinn á 27. mínútu, 11-11. Á síðustu sekúndum hálfleiksins skoraði Halldór Ingi fyrir Hauka úr hraðaupphlaupi og kom þeim yfir í fyrsta sinn síðan á 13. mínútu leiksins.

Lítið bar á milli liðinna í síðari hálfleiknum. Haukar voru þó ívið betri en forskot þeirra var aldrei meira en tvö mörk. Á 53. mínútu, í stöðunni 22-22 náðu Haukamenn góðum kafla og skoruðu þrjú mörk í röð. Staðan orðin 22-25 og útlitið ekki gott fyrir Selfyssinga. Á 57. mínútu, þegar Haukamenn eru með boltann, fóru Selfyssingar í maður á mann vörn sem svínvirkaði.

 

Haukur Þrastarson skoraði þrjú mörk í röð fyrir Selfoss og jafnaði leikinn, 25-25. Sölvi Ólafsson átti síðan gríðarlega mikilvæga vörslu á síðustu sekúndum leiksins. Selfoss fékk í kjölfarið síðustu sókn leiksins sem Elvari Erni Jónssyni tókst að nýta, með góðu skoti úr erfiðu færi. Selfoss sigraði því Hauka með einu marki, 26-25, eftir ótrúlegar lokamínútur á Selfossi.

Af hverju vann Selfoss leikinn?

Þetta var gríðarlega sterkur baráttusigur hjá Selfyssingum. Að vera þremur mörkum undir á móti Haukum á 57. mínútu er ekki auðveld staða, en Selfyssingar létu aldrei deigan síga.

Patrekur Jóhannesson á einnig skilið lof, en maður á mann skipulag hans gekk fullkomlega upp á síðustu mínútum leiksins. 

 

Hverjir stóðu upp úr?

Haukur Þrastarson átti mjög góðan leik hjá Selfossi, þó ekki væri nema bara fyrir frábæra frammistöðu á lokamínútum leiksins. Hann var markahæstur í liði Selfoss með 6 mörk.

Halldór Ingi Jónasson var markahæstur í liði Hauka með 7 mörk, þar af þrjú hraðaupphlaup. Björgvin Páll átti einnig mjög fínan dag í markinu og mega Haukar þakka honum fyrir flest ef ekki öll þeirra hraðaupphlaupsmörk.

 

Hvað gekk illa?

Haukum tókst vel að ná tökum á skyttum Selfyssinga í kvöld. Elvar Örn skoraði 5 mörk úr 10 skotum og Teitur Örn var með 3 mörk úr 9 skotum.

 

Haukar spiluðu mjög góðan leik í 57 mínútur og hefðu flesta daga klárað leikinn, úr því sem komið var. Reynt lið Haukamann féll á prófinu á síðustu mínútum leiksins.

 

Hvað gerist næst?

Næsta sunnudag, eftir nákvæmlega viku, taka Haukar á móti Víkingum í Schenkerhöllinni sinni á Ásvöllum. Einum degi seinna, mánudaginn 26. febrúar taka Selfyssingar á móti Gróttu. 

 

Hörku barátta framundan á toppi á botni og gífurlegar mikilvæg stig í boði fyrir öll lið. Hvort sem þau eru að berjast um það að halda sér í deildinni eða að tryggja sér heimavallarréttinn í komandi úrslitakeppni.

 

Patrekur: Frábær tvö stig
Patrekur Jóhannessonvísir/vilhelm
„Bara frábært hjá okkur að vinna þennan leik. Það leit ekki út fyrir það síðustu mínúturnar. Þetta var reyndar jafn leikur. Mér fannst Haukarnir frábærir. Bjöggi náttúrlega sýndi hvað hann getur, menn voru hræddir við hann og við vorum að skjóta auðveldlega á hann,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, við Vísi eftir dramatískan sigur, 26-25, á Haukum í kvöld.

 

„Ég var ánægður með fyrri hálfleikinn. Það var margt gott í þessu. Við gleðjumst yfir sigrinum. Frábær tvö stig á móti massífu Haukaliði, en ég sé alveg að það þarf að sýna meira þor í skotunum.“

 

Varnarleikur Selfyssinga var virkilega góður í kvöld og kom Patrekur inn á það.

 

„Mér fannst vörnin góð. Við fáum 14 mörk á okkur í fyrri hálfleik, þar af eru tíu af þeim annað hvort hröð miðja eða hraðaupphlaup. Svo vörnin var að fá einhver fjögur til fimm mörk á sig.

 

Patrekur segir það gífurlega sterkt að ná að vinna Haukaliðið.

 

„Það er frábært að vinna sterkt lið Hauka. Þetta eru frábærir gæjar og massíf liðsheild og ég er með ungu gaura sem vinna. Þeir eru ungir alveg sama hvað menn segja. Það eru atriði sem ég get fundið að, en menn læra það með árunum,“ sagði Patrekur að lokum, en með sigrinum náðu Selfyssingar þriggja stiga forskoti á Hauka, í þriðja sæti Olís-deildarinnar.

 

Gunnar: Skil ekki hvernig þessi bolti fór inn
Gunnar Magnússonvísir/anton
„Þetta er erfitt bara og svekkjandi. Við köstum þessu frá okkur í lokin. Á lokasekúndunum með svona marga reynda leikmenn inni á vellinum, þetta eru dýrir tæknifeilar í lokin, að kosta honum beint í hendurnar á þeim. Það er erfitt að kyngja því,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka í leikslok.

 

Haukar voru þremur mörkum yfir á 57. mínútu leiksins og telur Gunnar að sitt lið hafi átt að klára leikinn.

 

„Alltaf. Menn með mikla reynsla á háum gæðaflokki. Ég veit ekki hvort þeir frjósa eða hvað gerist. Við bara köstum honum frá okkur. Í lokin fáum við dauðafæri til að komast yfir og svo veit ég ekki hvernig Elvar fór að því að setja hann inn. Ég skil ekki hvernig þessi bolti fór inn.“

Á heildina litið var Gunnar þó ánægður með leik sinna manna í kvöld.

„Mér fannst við frábærir í 57 mínútur. Ég var virkilega ánægður með það allt saman. Núna erum við tvisvar búnir að tapa á móti Selfossi á síðustu sekúndunum. Það er ógeðslega svekkjandi,“ sagði Gunnar að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.