Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði í handbolta, er sjöundi besti „gamli karlinn“ í handboltaheiminum að mati Handball-Planet.com en það listar upp 30 bestu eldri leikmennina sem enn þá eru að spila.
Alexander Petersson er sæti á eftir Guðjóni Val á sama lista en þessir tveir frábæru leikmenn Þýskalandsmeistara Rhein-Neckar Löwen virðast eilífir í boltanum. Guðjón Valur er 39 ára (f. 1979) en Alexander er 38 ára (f. 1980).
Guðjón hefur um árabil verið einn fremsti handboltamaður Evrópu og einn sá allra besti í sinni stöðu en þessi magnaði hornamaður slær hvergi slöku við og var kosinn besti leikmaður fyrstu umferðar Meistaradeildarinnar á þessari leiktíð.
Íslensku landsliðsmennirnir eru í góðra manna hópi en fyrir ofan þá á listanum eru Raul Entrerrios, Kiril Lazarov, Laszlo Nagy, Momir Ilic og markvarðaundrin Thierry Omeyer og Arpad Sterpik.
Guðjón Valur er elsti útispilarinn af þeim ellefu efstu á listanum en hinn fertugi Dani Michael Knudsen er í tólfta sæti. Flestir sem eru eldri en Guðjón Valur á listanum eru markverðir en alls eru ellefu markverðir á þessum topp 30 lista.
Elsti maður listans er spænski markvörðurinn José Javier Hombrados en þessi 46 ára gamli markvörður er enn í fullu fjöri í spænsku deildinni með Guadalajara þar sem hann sinnir einnig starfi forseta félagsins.
Hér má sjá allan listann.
Guðjón Valur og Alexander á meðal tíu bestu „gömlu karlanna“
Tómas Þór Þórðarson skrifar

Mest lesið









Hundur vildi prófa nýja gervigrasið og fór inn á völlinn í Eyjum
Íslenski boltinn

Taka ákvörðun um Glódísi á leikdag
Fótbolti