Innlent

Hildur Lilliendahl á orð ársins 2017

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Hildur Lilliendahl.
Hildur Lilliendahl. Vísir/Stefán
Stofnun Árna Magnússonar, RÚV og Mímir, félag stúdenta í íslensku og almennum málvísindum við Háskóla Íslands, stóðu fyrir kosningu á orði ársins 2017 á dögunum. Kosningu lauk í gær og var það orðið epalhommi sem hlaut flest atkvæði. Orðin leyndarhyggja, þyrilsnælda, falsfrétt, uppreist, örplast, hægvarp, líkamsvirðing, áreitni og innviðauppbygging komu einnig til greina.

Hildur Lilliendahl notaði orðið fyrst þann 7. mars á þessu ári, þegar skrifaði um Sindra Sindrason fréttamann á Stöð 2. Segir í tilkynningu um valið:

„Sindri Sindrason fréttamaður á Stöð 2 ræddi við Töru Margréti Vilhjálmsdóttur, formann Samtaka um líkamsvirðingu, í tengslum við grasrótarhátíðina Truflandi tilvist 6. mars 2017. Tara Margrét sagði að maður í forréttindastöðu, eins og Sindri, gæti ekki sett sig í spor fólks í jaðarhópum sem verður fyrir fordómum annarra. Sindri taldi þá upp nokkra minnihlutahópa sem hann tilheyrði.

Svar Sindra vakti harkaleg viðbrögð á samfélagsmiðlum og meðal annars talaði Hildur Lilliendahl Viggósdóttir um kúgaða, hvíta, ófatlaða epalhommann og þar birtist orðið fyrst.  Daginn eftir, 7. mars, birtist opnuauglýsing frá versluninni Epal í dagblöðum. Auglýsingin er einfaldlega mynd af sex þekktum hommum í verslun Epals og er hún án orða.

Hér á vel við orðtakið þeir skilja sem vilja því að með þessari orðlausu auglýsingu var merkingu orðsins epalhommi snúið við. Það var sett fram í niðrandi merkingu en snúið upp í jákvæða. Í íslenskri nútímamálsorðabók á gáttinni málið.is er epalhommi sagt merkja samkynhneigður karlmaður sem hefur áhuga á vandaðri hönnun.“

Þess má geta að fyrr á árinu minnti Hildur á það á Twitter að hún hafi verið fyrst til að nota orðið epalhommi. Sindri óskaði Hildi til hamingju með orð ársins á Facebook í dag og óskaði hún honum til hamingju sömuleiðis. 
Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.