Innlent

Jólaljósin tendruð á Oslóartrénu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Oslóartréð var tendrað við hátíðlega athöfn á Austurvelli síðdegis. Íslenskt grenitré úr norska lundinum í Heiðmörk varð fyrir valinu í ár.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veitti trénu viðtöku fyrir hönd Reykjavíkur en að þessu sinni afhenti Eivor Evenrud, borgarfulltrúi Oslóarborgar, tréð formlega á Austurvelli. Askasleikir, 12. jólaórói Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra prýðir jólatréð í ár en Guðmundur Oddur Magnússon, Goddur, hannaði óróann.

Þá sungu Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsson jólalög á Austurvelli í dag ásamt hljómsveit. Lúðrasveit Reykjavíkur flutti einnig vel valin lög auk þess sem jólasveinar stálust til byggða og skemmtu krökkum á svæðinu.

Tendrun jólaljósanna á Oslóartrénu markar upphaf aðventunnar í Reykjavík og minnir á vináttusamband Reykjavíkur og Oslóarborgar.

Glatt var á hjalla á Austurvelli í dag og mikill mannfjöldi fylgdist með tendrun ljósanna eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Hátíðlegt var um að litast á Austurvelli þegar ljósin á Oslóartrénu voru tendruð.Vísir/Ernir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×