Körfubolti

Grindavík samdi við Kana sem lék í mynd með Martin Lawrence

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Vonandi er Rashad ekki Whack og tekur nokkur Rebound.
Vonandi er Rashad ekki Whack og tekur nokkur Rebound. vísir/getty
Lið Grindavíkur í Domino´s-deild karla í körfubolta er loksins búið að landa bandarískum leikmanni til að spila með liðinu í vetur en frá þessu er greint á karfan.is.

Grindvíkingar eru búnir að semja við hinn 26 ára gamla Rashad Whack sem er 191 cm hár bakvörður en hann útskrifaðist frá Mount St. Marys-háskólanum fyrir þremur árum og hefur síðan þá spilað í Kanada og Sviss.

Whack bætist við annars gríðarlega öflugt lið Grindvíkinga sem fór með meistara KR alla leið í oddaleik í lokaúrslitum deildarinnar á síðustu leiktíð. Auk Whack hafa Grindjánar fengið miðherjann Sigurð Gunnar Þorsteinsson til liðs við sig og haldið meira og minna öllu liðinu saman.

Rashad Whack hefur gert meira en bara spila körfubolta á ferlinum því þegar hann var ungur drengur lék hann í körfuboltamyndinni Rebound en þar var í aðalhlutverki grínistinn Martin Lawrence. Lawrence er hvað þekktastur fyrir hlutverk sitt í myndunum Bad Boys með Will Smith.

Faðir Whacks þekkti Lawrence þegar hann var húsvörður löngu áður en hann varð einn virtasti og besti grínisti Bandaríkjanna en Rashad komst í gegnum strangar áheyrnaprufur áður en hann fékk hlutverkið.

Jóhann Ólafsson, þjálfari Grindvíkinga, segir við karfan.is að tveir Bandaríkjamenn hafi nú þegar verið búnir að semja við Grindavík áður en þeir hættu við og vonar að allt sé þá er þrennt er.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.