Körfubolti

NBA-stjarna hrósaði Tryggva eftir leikinn í gærkvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jonas Valanciunas og Tryggvi Snær Hlinason.
Jonas Valanciunas og Tryggvi Snær Hlinason. Vísir/Samsett/Getty og Eyþór

Tryggvi Snær Hlinason átti mjög góðan leik í körfuboltalandsleiknum á móti Litháen í gærkvöldi en þar fékk íslenski miðherjinn að glíma við öflugan leikmann úr NBA-deildinni.

Jonas Valanciunas, leikmaður Toronto Raptors, var í byrjunarliði Litháens en hann hefur spilað í NBA-deildinni undanfarin fimm tímabil við góðan orðstír.

Tryggvi Snær endaði leikinn með 19 stig, 7 fráköst og 80 prósent skotnýtingu (8 af 10). Jonas Valanciunas sjálfur var með 14 stig og 11 fráköst. Þeir vörðu báðir tvö skot.

Valanciunas hrósaði íslenska landsliðsmanninum í viðtölum við blaðamenn eftir leikinn.

Litháenski blaðamaðurinn Donatas Urbonas benti á þetta á Twitter.

„Hann er virkilega góður. Hann er ungur ennþá en er með góða hæð og hefur mikla möguleika. Nú er það undir honum komið að bæta við sinn leik. Ef hann bætir mikið við sinn leik þá getur hann orðið virkilega góður leikmaður. Í dag getur hann samt spilað á háu stigi,“ sagði Jonas Valanciunas um Tryggva.

Það er þegar byrjað að orða Tryggva við NBA-deildina í framtíðinni eftir frábæra frammistöðu sína á EM 20 ára landsliða á dögunum og það er ekki slæmt fyrir orðsporið ef NBA-leikmenn eru farnir að tala um okkar mann líka.

Valanciunas, sem er 25 ára gamall,  var með 12,0 stig og 9,5 fráköst að meðaltali með Toronto Raptors liðinu á síðasta tímabili.

Jonas Valanciunas þekkir það vel að vera ungur og efnilegur en miklar væntingar voru bundnar við hann og hann var valinn 19 ára gamall í NBA-deildina í nýliðavalinu 2011.

Valanciunas spilaði þó ekki sinn fyrsta NBA-leik fyrr en tímabilið 2012-2013 því hann var eitt ár til viðbótar með Lietuvos rytas Vilnius.

Í NBA-deildinni hefur hann bætt sinn leik mikið farið frá því að vera með 8,9 stig og 6,0 fráköst í leik á fyrsta tímabili í það að vera með meira en 12 stig og 9 fráköst að meðaltali á síðustu tveimur tímabilum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.