Viðskipti erlent

Evran styrkist í kjölfar úrslita forsetakosninganna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Gengi evrunnar gagnvart dollaranum var í dag hæst um 1,102.
Gengi evrunnar gagnvart dollaranum var í dag hæst um 1,102. Vísir/Valgarður
Evran hefur ekki verið sterkari gagnvart Bandaríkjadollar í sex mánuði. Sviptingarnar eiga sér stað í kjölfar úrslita forsetakosninganna í Frakklandi sem kynnt voru í dag. Þetta kemur fram í umfjöllun The Guardian um frönsku forsetakosningarnar.

Gengi evrunnar gagnvart dollaranum var í dag hæst um 1,102 en það hefur ekki verið hærra síðan eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember á síðasta ári. Fjárfestar anda nú léttar en ekki ríkir lengur óvissa með aðild Frakklands að Evrópusambandinu.

Gengishækkunin er þó nokkuð hófleg þar sem sigur Macron þótti öruggur.

Michiel de Bruin, fjármálasérfræðingur við bankann í Montréal í Kanada, sagði í samtali við The Guardian að „sigur Macron sendi skýr skilaboð þess efnis að stjórnmálaflokkar, sem eru á móti Evrópusambandinu og byggja stefnu sína á lýðskrumi, geta ekki tryggt sér umráðasvæði í pólitísku landslagi meginlands Evrópu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×