Körfubolti

Furman tapaði í nótt í síðasta leik Kristófers fyrir skólann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristófer Acox.
Kristófer Acox. vísir/bára dröfn

Kristófer Acox spilaði í nótt síðasta leikinn á tímabilinu með Furman-háskólanum í bandaríska háskólakörfuboltanum en liðið datt þá út í undanúrslitum CollegeInsider.com úrslitakeppninnar (CIT).

Þetta eykur líkurnar á því að Kristófer Acox spili með KR í úrslitakeppninni í ár en KR-ingar hefja leik í undanúrslitunum í DHL-höllinni í kvöld.

Furman tapaði nótt með sextán stigum á móti Saint Peter's, 77-51, eftir að hafa verið átján stigum undir í hálfleik, 37-19.

Skelfileg byrjun fór með leikinn en Saint Peter's liðið skoraði fimmtán fyrstu stig leiksins. Kristófer Acox skoraði fyrsta stig Furman á vítalínunni eftir sjö og hálfa mínútu.

Kristófer Acox átti ágætan leik en hann skoraði 11 stig, tók 7 fráköst og stal 2 boltum. Kristófer hitti úr 5 af 8 skotum sínum.

Kristófer Acox setti nýtt skólamet með því að nýta 62,8 prósent skota sinna á tímabilinu og hann er ennfremur sá leikmaður í sögu skólans sem hefur nýtt skotin sín best eða 61,3 prósent.

Kristófer var með 13, 0 stig og 7,7 fráköst að meðaltali á lokaári sínu sem er langbesti árangur hans í skólanum. Hann hafði mest áður skorað 8,9 stig (2015-16) og tekið 7,5 fráköst (2014-15) að meðaltali á einu tímabili með skólanum.

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, hefur sagt að KR-ingar hafi skoðað þann möguleika að Kristófer spili með KR í úrslitakeppninni en það hefur ekki verið staðfest hvort að Kristófer muni hjálpa KR-ingum að vinna Íslandsmeistaratitilinn fjórða árið í röð.

Kristófer Acox spilaði fjögur ár með Furman-skólanum og skoraði alls 1051 stig og tók 780 fráköst í 118 leikjum sínum fyrir skólann.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.