Körfubolti

Ingi Þór: Skandall að Haukar séu að berjast við fall

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ingi Þór og félagar bíða enn eftir sínum fyrsta sigri í Domino's deild karla.
Ingi Þór og félagar bíða enn eftir sínum fyrsta sigri í Domino's deild karla. vísir/eyþór
Snæfell bíður enn eftir sínum fyrsta sigri í Domino's deild karla í karla. En hvað vantaði upp á gegn Haukum í kvöld að mati Inga Þórs Steinþórssonar, þjálfara liðsins?

„Það vantaði svolítið mikið upp á. Mér fannst byrjunarliðið í heild sinni svolítið flatt á meðan þeir voru tilbúnir og vel stemmdir,“ sagði Ingi Þór eftir leik.

„Við sættum okkur við að vera fyrir utan þriggja stiga línuna og sóttum ekki á körfuna. Um leið og við gerðum það var þetta jafn leikur. Byrjunin sat í okkur og það var slæmt að missa þá tvisvar frá sér. Munurinn var líka of mikill í fráköstunum, þeir voru miklu grimmari í þeim.“

Snæfell skoraði níu fyrstu stig 3. leikhluta og náði að minnka muninn í þrjú stig, 53-30. Nær komust gestirnir þó ekki.

„Við gerðum mistök í færslum og þeir skoruðu svona stemmningskörfur,“ sagði Ingi Þór og beindi talinu að liði Hauka.

„Það er skandall á hvaða stað þetta lið er í töflunni. Þeir eru með tvo Kana og fullt af gríðarlega góðum körfuboltamönnum. Það er skandall að þeir séu að berjast við fall, það er bara asnalegt. Ég ber virðingu fyrir strákunum í þessu liði og þeir eru miklu betri í körfubolta en þeir sýna,“ sagði Ingi sem sagði allt havaríið í kringum skíðaferð Ívars Ásgrímssonar, þjálfara Hauka, ekki hafa haft áhrif á sína menn í aðdraganda leiksins.

„Nei nei, við vorum bara komnir til að skila körfubolta við Hauka. Ég er búinn að tjá mig um það. Eins og ég sagði, persónulega myndi mér aldrei detta í hug að gera þetta. Menn verða svo að meta hvort þetta sé diss. En við nýttum okkur það ekki,“ sagði Ingi Þór að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×