Jól

Sykurlausar sörur hinna lötu

Vera Einarsdóttir skrifar
Dóttir Hafdísar, Emma Sigrún, átti hugmyndina að piparkökuostakökunni sem er sykurlaus. MYNDIR/EYÞÓR
Dóttir Hafdísar, Emma Sigrún, átti hugmyndina að piparkökuostakökunni sem er sykurlaus. MYNDIR/EYÞÓR

Hafdís Priscilla Magnúsdóttir, sem heldur úti kökublogginu Dísukökur, bakar alltaf sykurlaust. Hún rakst á uppskrift að sörum hinna uppteknu fyrir einhverjum árum og ákvað að útbúa sykurlausa útgáfu sem slegið hefur í gegn.

Ég er reyndar ekki upptekin – bara löt svo ég kalla mínar „sörur hinna lötu“,“ segir Hafdís sposk en í stað þess að gera margar litlar kökur er uppskriftin útbúin í eldföstu móti og sörurnar skornar eða brotnar í bita, sem sparar umtalsverða fyrirhöfn.

Hafdís byrjaði að sniðganga hefðbundinn sykur fyrir margt löngu og upp úr því varð bloggið Dísukökur til. „Tengdafaðir minn og mágur eru báðir með sykursýki og ég með vefjagigt. Þegar LKL-æðið stóð sem hæst prófaði ég að útbúa sykurlausa köku sem sló í gegn og þá varð ekki aftur snúið,“ upplýsir Hafdís. Hún segist misdugleg að halda sig frá sykrinum og sömuleiðis að setja inn á bloggið en það þjónar þeim tilgangi að halda utan um þær uppskriftir sem hún hefur prófað.

„Ég geri yfirleitt ekki sömu uppskriftina mörgum sinnum enda hef ég mest gaman af því að finna upp nýjar,“ segir Hafdís sem fer mikið á netið í uppskriftaleit. „Ég finn út hvaða hlutföll passa en breyti svo eftir mínu höfði.“

Ostakakan er uppfull af jólabragði.

Hafdís notar hvorki hveiti né hefðbundinn sykur í bakstur. „Ég passa að eiga þetta aldrei til og þarf því að laga uppskriftirnar að því.“ Aðspurð segir hún hlutina vissulega eiga það til að misheppnast. „Í því felst hins vegar ákveðin áskorun og þá reyni ég að finna út úr því hvað ég get gert til að bjarga málum. Misheppnaðar kökur hafa til að mynda orðið að kökubotni í ostaköku og fleira í þeim dúr.“

Hafdís segir börnin hennar þrjú eiga það til að biðja hana um að útbúa hinar ýmsu kræsingar sem ekki er endilega að finna í hefðbundnum uppskriftabókum og þá þarf hún að leggja höfuðið í bleyti. Þannig varð meðfylgjandi piparkökuostakaka til á dögunum. Hún heppnaðist vel og var borðuð upp til agna.

En hvernig er jólahaldið hjá fjölskyldunni? 

„Við erum með eina reglu og hún er sú að desember er afslöppunarmánuður. Við erum búin að kaupa allar jólagjafir fyrir 1. desember og förum ekki í búðir nema okkur hreinlega langi til þess. Við erum heldur ekki að stressa okkur á því að baka sjö sortir heldur bara það sem okkur langar til hverju sinni.“


Ostakaka með piparkökubragði

  • Botn:
  • 100 g smjör
  • 120 g möndlumjöl
  • 3 msk. Sukrin Gold
  • 1 msk. kanill

Bræðið smjör í potti. Bætið öðru hráefni við og blandið vel saman. Hellið í 20 sentímetra sílikon- eða springform (ef þið notið springform þarf að smyrja það með smjöri eða olíu).

Þjappið botninum vel niður og aðeins upp með hliðum. Bakið við 170 gráður í um það bil 10-12 mínútur eða þar til gyllt. Kælið.

  • Fylling:
  • 250 g rjómaostur
  • 70 g Sukrin melis
  • 1 tsk. vanilluextrakt eða -dropar
  • 3 dl þeyttur rjómi
  • 3 msk. Fibersirup Gold
  • 2 tsk. kanill
  • 1 tsk. negull
  • 1 tsk. engifer

Hrærið rjómaostinn og Sukrin melis vel saman. Bætið vanillu, Fiber­sirup Gold og kryddi við. Blandið þeyttum rjóma saman við í lokin. Hellið yfir botninn og frystið í tvo til þrjá klukkutíma.

Sörurnar eru útbúnar í eldföstu móti og skornar eða brotnar í bita. Þær geymast best í frysti.

Sörur hinna lötu/uppteknu

  • Botn:
  • 3 eggjahvítur (við stofuhita)
  • 50 g Sukrin melis
  • 70 g möndlu­mjöl

Eggjahvítur og Sukrin melis þeytt saman þar til stíft. Bætið möndlumjölinu varlega við með sleif. Setjið í eldfast mót (um það bil 30x25 sentímetra) með bökunarpappír. Bakið botninn á 150 gráðum án blásturs í um það bil 40 mínútur.

  • Krem:
  • 100 g smjör 
  • 50 g Sukrin melis
  • 3 eggjarauður
  • 2 tsk. kakó
  • 2 tsk. instant kaffi
  • 150 g sykurlaust súkkulaði, brætt

Öllu blandað vel saman. Smyrjið kreminu á botninn þegar hann er orðinn kaldur. Dreifið jafnt og frystið. Bræðið súkkulaðið. Kælið aðeins og hellið yfir kælt kremið. Dreifið vel úr því og látið harðna. Skerið í litla bita, setjið í box og geymið í frysti.








×