Jól

Heimagerðar jólagjafir geta líka slegið í gegn

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Hlín eyðir mestum tíma sínum bak við búðarborðið í verslun sinni á Fiskislóð úti á Granda.
Hlín eyðir mestum tíma sínum bak við búðarborðið í verslun sinni á Fiskislóð úti á Granda. Fréttablaðið/Ernir
Hlín Reykdal, vinnustofa og skart
Hlín Reykdal hönnuður hefur nýverið opnað verslun á Fiskislóð á Grandanum utan um skartgripahönnun sína sem flestum landsmönnum er kunn. Þar hefur hún einnig vinnustofu, þar sem hönnun og framleiðsla skartgripa hennar fer fram. Eiginmaðurinn tekur virkan þátt í framleiðsluferli skartgripanna. Hlín útskrifaðist sem fatahönnuður úr Listaháskóla Íslands árið 2009, en segir skartið alltaf í aðalhlutverki. Listin er henni í blóð borin, en foreldrar hennar eru báðir landsþekktir myndlistarmenn.



Hlín Reykdal, vinnustofa og skart
„Pabbi minn heitinn var listmálari og hét Jón Reykdal, hann lést árið 2013. Mamma mín heitir Jóhanna Þórðardóttir og er myndhöggvari. Eldri systir mín, Hadda Fjóla, er einnig myndlistarmaður sem gerir mögnuð verk – ég veit að hún er systir mín en mér finnst hún vera með okkar betri samtímalistamönnum!“ segir Hlín og stoltið leynir sér ekki.

„Flestar ef ekki allar helgar í æsku okkar fóru í að vera með mömmu og pabba á listasýningum. Mér leiddist það aldrei sem barn. Ég hef elskað að teikna og skapa frá því að ég man eftir mér. Ég hafði alltaf aðgang að blýöntum, málningu og litum.“

Þau ferðuðust líka til útlanda til að berja helstu listamenn heimsins augum. „Við heimsóttum öll helstu listasöfnin. Ég man ekki betur en að mér hafi alltaf þótt það áhugavert og gaman – svo voru mamma og pabbi dugleg að segja okkur frá listamönnunum og vekja áhuga okkar á þeim.“

Kom stundum grátandi heim

Hlín segir margt hafa verið gott í náminu við Listaháskólann, en það kom aldrei annað til greina en að leggja fjölskylduatvinnugreinina fyrir sig. Annað við skólann hafi mátt vera betra.

„Það voru mjög margir áhugaverðir kennarar – og aðrir sem voru algjörlega úti að aka. Ég byrjaði í Listaháskólanum, nýskriðin út úr menntaskóla og fannst rosalega gaman. Ég eyddi flestum stundum uppi í skóla eða við vinnuborðið mitt heima. Svo var pressa fyrir yfirferðirnar! Maður lagði sig allan fram en það kom fyrir að maður fékk harkalega dóma. Stundum fór maður grátandi heim úr þessum yfirferðum,“ rifjar Hlín upp, og brosir. „En það herti mann. Það sem ég myndi helst vilja gagnrýna í dag við skólann er að þegar yfirferðirnar voru, verið var að leggja dóm á verk manns, þá fékk maður ekkert alltaf þessa uppbyggilegu gagnrýni – af hverju þetta eða hitt væri gott eða vont. Ég tel það mikilvægt í kennslu að rýna til gagns.“

Í dag lifir Hlín af hönnun sinni, þó fyrstu árin hafi verið mögur. En er aldrei erfitt að ná endum saman?

„Við skulum orða það svo að suma mánuði þarf maður að vera sparsamari en aðra,“ segir Hlín, hlæjandi og heldur áfram.

„Mér finnst almennt mikill áhugi fyrir íslenskri hönnun og maður finnur stigvaxandi virðingu fyrir faginu. Þar hefur Hönnunarmiðstöð spilað stóra rullu, með Höllu Helgadóttur í fararbroddi. HönnunarMars er náttúrulega frábært framtak. Það er rosalega mikilvægt fyrir okkur hönnuði að eiga Hönnunarmiðstöð. Svo verð ég að nefna Eyjólf í Epal – hann er hreint út sagt frábær fyrir þennan bransa. Hefur komið alls konar samstarfsverkefnum á koppinn og verið mörgum ungum hönnuðum góður ráðgjafi.“

Almennt þyki henni gott á milli fólks í geiranum. „Mér finnst gott andrúmsloft á milli hönnuða og finnst þeir duglegir að hrósa hver öðrum þegar vel gengur. Einnig að deila upplýsingum um framleiðslu og annað.“

Nýi Kjötbærinn

En að versluninni sem Hlín rekur í nýja uppáhaldshverfinu sínu, Granda. „Þetta er svo skemmtilegt og sjarmerandi hverfi. Það er svo mikið af listamönnum og hönnuðum allt í kring. Í dag er verið að opna fullt af sérverslunum, kaffi- og veitingahúsum. Sem dæmi opnaði OmNom-súkkulaði verslun rétt hjá okkur, á svipuðum tíma og við opnuðum. Farmer’s Market hefur verið hér í lengri tíma,“ útskýrir Hlín.

„Síðan var opnað mjög spennandi te- og kaffihús þar sem Grandakaffi var áður, sem heitir Kumiko. Þau eru klárlega með besta heita súkkulaði á landinu einmitt gert úr OmNom-súkkulaði – talandi um samstarf á Grandanum! Vinkonur mínar í Reykjavík Letterpress voru líka að flytja í sömu götu og svo mætti lengi telja.“ Hún nefnir Valdísi, Ostabúðina, Búrið, Matarbúrið – þar sem bóndinn sjálfur tekur á móti viðskiptavinum og afgreiðir kjöt. „Flottasta jógastöð landsins er rétt við hliðina á okkur. Svo var opnuð gleraugnabúð á Grandanum í síðustu viku. Ég vildi að ég gæti talið alla upp sem eru með verslun á Grandanum en þá væri ég komin í algjöra langloku,“ segir Hlín – sem telur mikla framtíð í þessu tiltölulega nýja hverfi. „Það er svo sjarmerandi hérna að það er svona kaupstaðarstemning. Eigandinn oftast bak við búðarborðið og tekur fagnandi á móti gestum og gangandi – oft sér maður líka inn á verkstæðin, eldhúsin eða framleiðsluna hjá viðkomandi.“

Almennt sé mikil uppbygging úti á Granda. „Miðbærinn hefur líka breyst hratt og mikið undanfarið – sem er alls ekkert neikvætt – frekar jákvætt. Það sem gerist þá er að upp spretta ný og spennandi hverfi. Fyrir nokkrum árum varð svipuð þróun í Kaupmannahöfn en þá varð Kjötbærinn aðalhverfið.“



Vinnustofa Hlínar er inn af versluninni á Granda. Eiginmaðurinn tekur virkan þátt í framleiðslu skartgripanna. Fréttablaðið/Ernir
Á leið til New York

En nú er jólavertíð og því í mörg horn að líta fyrir verslunareigandann í nýja Kjötbænum. Hún eyðir mestum tíma bak við búðarborðið um þessar mundir – en hún reynir að vera jólaleg heima fyrir með fjölskyldunni líka. „Ég vakna venjulega um sjö, helli upp á gott kaffi og kem stelpunum mínum í skóla og leikskóla. Tek mér tíma til að spjalla við þær á sloppnum um daginn og veginn. Síðan verður oftast smá panikk á heimilinu, þegar allir verða allt í einu of seinir. „Oftast slengi ég í úfinn snúð og mála mig svo í bílnum,“ segir Hlín hlæjandi.

Þessa dagana í að spjalla við töffarana í tollinum – þar sem við erum að flytja inn vörur fyrir búðina – sápur og skartgripi eftir aðra hönnuði og alls konar fallega gjafavöru. Svo vinn ég oftast til rúmlega sex.“



Hlín elskar að elda mat, sem hún segir eitt af sínum aðaláhugamálum. „Ég nýt þess í botn að elda góðan mat fyrir fjölskylduna og eiga gæðastund með þeim.“

Svo er margt fram undan. Á dögunum var Hlín boðin þátttaka í stórri skartgripasýningu í New York á næsta ári. „Sýningin heitir Loot og er haldin í Museum of Art and Design in New York. Þetta er mjög spennandi sýning en skartgripahönnuðir víðs vegar að úr heiminum sýna. Safnið er virkilega flott og stórt og er þetta mikill heiður að vera valin inn í þessa sýningu.

Sýningarstjórinn hafði samband við mig fyrir um ári, en hún hafði lesið litla grein um mig í New York Times. Sú er búin að vinna í skartgripaheiminum í mörg ár og sérhæfir sig meðal annars í að finna nýja og spennandi skartgripahönnuði. Ég er mjög spennt fyrir sýningunni bæði að sjá hvað aðrir hönnuðir eru að gera og svo er bara spurning hvert svona sýning leiðir mann,“ segir Hlín.

Hugmyndir Hlínar að heimagerðum jólagjöfum:



1. Heimatilbúið:

„Heimatilbúnar sultur, smákökur, kæfur, hrökkbrauð, jafnvel jólaglögg eða heimatilbúnar karamellur. „Mér finnst rosalega smart að gefa eitthvert gúmmelaði úr eldhúsinu,“ segir Hlín. „Málið er bara að pakka þessu svolítið smart inn – til dæmis í bökunarpappír með smart borða.“



2. Uppskrift og allt klárt:

Önnur frábær hugmynd sé að gefa uppskrift að uppáhaldsbrauðinu sínu eða smákökum. „Blanda þurrefnunum saman og setja í flotta krukku og láta uppskriftina fylgja. Eina sem þarf svo að gera er að skella blautefnunum inn í ofn og voilá!“

 3. Lagalisti:

Á persónulegri nótum segir Hlín að góð hugmynd að jólagjöf sé að setja saman persónulegan lagalista og gefa. „Það er til dæmis hægt að setja slíkt upp á Spotify. Það er hugurinn sem gildir!“

4. Fallegt albúm:

Nú þegar allir eru svo duglegir að taka myndir á símana sína, sé skemmtileg pæling að prenta út myndir af skemmtilegum samverustundum. „Setja svo upp í fallegt albúm eða í eitthvert smart box.“






×