Körfubolti

Hörður Axel yfirgefur Keflavík eftir aðeins tvo leiki

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson er farinn aftur í atvinnumennsku.
Hörður Axel Vilhjálmsson er farinn aftur í atvinnumennsku. vísir/valli
Hörður Axel Vilhjálmsson, leikmaður Keflavíkur í Domino's-deild karla í körfubolta, hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Keflavíkurliðið í bili, samkvæmt heimildum Vísis.

Íslenski landsliðsmaðurinn er á leið til belgíska úrvalsdeildarliðsins Hubo Limburg United en Hörður Axel flaug út í morgun. Þetta kom upp seint í gærkvöldi og er Hörður nú á leið til Belgíu.

Samningurinn er stuttur til að byrja með, samkvæmt heimildum Vísis og því ekki útilokað að Hörður Axel snúi aftur til Keflavíkur.

Hörður Axel kom til Keflavíkur daginn áður en Domino's-deildin hófst en leikstjórnandinn var búinn að vera í stríði við grískt lið sem vildi ekki sleppa honum. Það tókst á síðustu stundu og mætti hann í leik Njarðvíkur og Keflavíkur í fyrsta leik deildarinnar sem Keflavík vann í Ljónagryfjunni.

Hann náði einnig öðrum leik tímabilsins með Keflavík þar sem liðið tapaði fyrir Þór í Þorlákshöfn. Hörður Axel kveður Keflavík með fjórtán stig að meðaltali í leik, 4,5 fráköst og 4,5 stoðsendingar.

Limburg United er í sjötta sæti belgísku úrvalsdeildarinnar af tíu liðum með einn sigur og þrjú töp í fyrstu fjórum umferðunum. Liðið varð í fjórða sæti á síðustu leiktíð og komst í undanúrslitin í úrslitakeppninni. Í ár spilar belgíska liðið í FIBA Europe Cup.

Hörður Axel hefur áður spilað með MBC í Þýskalandi, CB Valladolid á Spáni, Aries Trikala í Grikklandi og CEZ Nymburk í Tékklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×