Ísak Ernir var einn þriggja dómara í bikarleik Grindavíkur og Stjörnunnar á sunndagskvöldið þar sem hann fór illa að ráði sínu á lokasekúndunum.
Þrátt fyrir að vera mjög vel staðsettur dæmdi hann ekki innkast á Ólaf Ólafsson, leikmann Grindavíkur, þegar hann steig á hliðarlínuna er hann gaf stoðsendinguna á Lewis Clinch sem skoraði sigurkörfu leiksins.
Stjörnumenn trylltust og fékk Hrafn Kristjánsson, þjálfari liðsins, tæknivillu fyrir að mótmæla ákvörðun Ísaks um að dæma ekki innkast sem Stjarnan hefði þá fengið.
Í staðinn fyrir að dæma leik Þórs Þ. og Stjörnunnar verður Ísak í frábæru þriggja manna teymi með Sigmundi Má Herbertssyni og Kristni Óskarssyni, föður sínum, í leik Hauka og ÍR sem er hinn leikurinn á föstudaginn.
„Það geta verið allskonar ástæður fyrir því að við þurfum að hreyfa menn til þó það sé búið að bóka menn að leiki. Það geta komið upp meiðsli og annað,“ segir Rúnar Birgir.
Aðspurður beint hvort ástæðan sé ekki að ótækt hafi verið að láta Ísak Erni dæma leik hjá Stjörnunni aðeins fimm dögum eftir bikarklúðrið segir dómarastjórinn: „Það er ekkert endilega ástæðan.“
Leikur Þórs Þ. og Stjörnunnar verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD klukkan 19.45 á föstudagskvöldið en sjötta umferðin verður svo gerð upp í Dominos-Körfuboltakvöldi eftir leik eða klukkan 22.00.