Fastir pennar

Smánarterta Íslendinga

Sif Sigmarsdóttir skrifar
Sjaldan hefur ein kaka valdið jafnmiklum usla. Kakan var svo sem ekkert sérstök í sjálfu sér. Bara venjuleg svampterta með sykurbráð. En áhrif hennar náðu langt út fyrir mörk bragðlaukanna.

Sagan hófst þegar Gareth Lee gekk inn í bakaríið Ashers Baking Company í Belfast á Norður-Írlandi í júlí síðastliðnum. Þar rakst hann á auglýsingabækling frá fyrirtækinu um sérpantanir. Gareth vantaði einmitt köku fyrir samkomu sem hann var að skipuleggja. Hann pantaði kökuna, greiddi fyrir og hélt heim á leið.

Tveim dögum síðar hringdi síminn. Hinum megin á línunni var kona, einn eigenda bakarísins. Hún tjáði Gareth að fyrirtækið hygðist ekki baka fyrir hann kökuna sem hann hafði pantað. Kökuna fengi hann endurgreidda hið fyrsta. Þegar Gareth heyrði ástæðuna trúði hann ekki eigin eyrum.

Annars flokks manneskja

Gareth Lee er samkynhneigður. Kakan sem hann hafði keypt var fyrir einkasamkvæmi þar sem fagna átti alþjóðlegum degi gegn fordómum í garð samkynhneigðra. Kökuna átti að prýða mynd af Bert og Ernie úr barnaþáttunum Sesamee Street ásamt slagorðinu „styðjum hjónaband samkynhneigðra“.

En eigendur bakarísins voru kristnir. Sögðust þeir ekki geta átt viðskipti við Gareth því það stangaðist á við trú þeirra.

Gareth var brugðið. Lýsti hann því sem svo að sér hafi liðið eins og „annars flokks manneskju“, eins og hann hefði unnið sér eitthvað til „vansæmdar“.

Gareth hafði samband við skrifstofu umboðsmanns jafnréttismála á Norður-Írlandi sem skrifaði eigendum bakarísins bréf og krafðist þess að Gareth fengi miskabætur. En bakaríseigendurnir ákváðu að standa fast á sínu. Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu um kökuna sagði að „hún stangaðist á við Biblíuna“.

Málið fór að endingu fyrir dómstóla. Síðastliðinn þriðjudag komst dómur að þeirri niðurstöðu að bakaríið hefði mismunað Gareth vegna kynhneigðar hans og voru eigendurnir dæmdir til að greiða honum 500 pund í miskabætur.

Hafin yfir lög, reglur og 21. öldina

Við Íslendingar erum langtum umburðarlyndara samfélag en Norður-Írland þegar kemur að réttindum samkynhneigðra. Þegar hjónaband samkynhneigðra var lögleitt í Bretlandi fyrir rétt rúmu ári var Norður-Írland undanskilið. Engin áform virðast uppi um að lögleiða það í bráð.

En þótt við teljum okkur umburðarlynd eigum við sjálf okkar eigin smánartertu.

Kirkjuþing unga fólksins kom saman fyrr í mánuðinum. Sendi samkundan frá sér ályktun þar sem hvatt var til þess að regla um samviskufrelsi presta yrði afnumin en hún heimilar prestum þjóðkirkjunnar að neita samkynja pörum um hjónavígslu á grundvelli samvisku sinnar. Ályktunin verður lögð fyrir kirkjuráð þjóðkirkjunnar og verður líklega tekin fyrir í júní en í kirkjuráði situr biskup meðal annarra.

Við ungliða þjóðkirkjunnar vil ég segja: „High five“. Við hitt liðið vil ég segja: „Hæ, ég sé ykkur. Við sjáum ykkur öll.“

Stundum er eins og kirkjunnar fólk telji hempur sínar gæddar töframætti á borð við huliðsskikkjuna úr Harry Potter. Það er eins og þeim finnist þau lifa í samfélagslegu lofttæmi, eins og þau séu hafin yfir tíma og rúm, lög og reglur, mannréttindi og 21. öldina. Það er eins og þeim finnist þau geti gert það sem þeim sýnist.

Og þegar kemur að hjónaböndum samkynhneigðra er sú og raunin. Engum leyfist, hvorki einstaklingi, einkafyrirtæki né opinberri stofnun, að gera upp á milli fólks vegna kynhneigðar – nema prestastéttinni. Aðeins prestum er gefin undanþága frá því að virða mannréttindi.

En hingað og ekki lengra. Hvers vegna kirkjunni líðst að neita einum þjóðfélagshóp um þjónustu sína á 21. öldinni er með ólíkindum. Hvort sem við stöndum innan eða utan kirkjunnar kemur málið okkur við. Stöndum með unga fólkinu í þjóðkirkjunni og látum fornfálega forystusveit hennar ekki komast upp með að hunsa sjálfsagða kröfu þess. Afsláttur kirkjunnar á mannréttindum er ekki einkamál hennar heldur mál samfélagsins alls.

Verslunarmaður ræður ekki hvern hann afgreiðir í búð sinni. Hann gæti ekki neitað að afgreiða samkynhneigða. Ekki frekar en svertingja eða gyðinga eða rauðhærða eða fólk með stórt nef. Ekki frekar en á Norður-Írlandi gæti íslenskur bakari neitað samkynhneigðum um þjónustu. Hvers vegna mega íslenskir prestar það?






×