Bakþankar

Ég er pabbi og mamma

Birta Björnsdóttir skrifar
Æ þetta er eitthvert amerískt rusl!

Þetta var svarið sem barnungar systur fengu frá föður sínum á vídeóleigu snemma á níunda áratug síðustu aldar eftir að hafa suðað hressilega um að fá að leigja Look Who's Talking í fjórtánda skipti.

Faðirinn vildi frekar að dæturnar eyddu tíma sínum í að horfa á eitthvað uppbyggilegt, eitthvað gefandi svo úr varð að þrenningin hélt heim af myndbandaleigunni með stórmyndina Mit Liv Som Hund eftir Lasse Hallström. Óhætt er að fullyrða að sú eflaust ágæta mynd vermdi botnsæti óskalista okkar systra þó við höfum báðar lifað vídeókvöldið af og vel það.

Ég minnist þessarar tilraunar til menningarlegs uppeldis á myndbandaleigunni reglulega eftir að ég byrjaði sjálf að reyna að ala upp mín eigin börn. Ég heyri nefnilega reglulega bergmál úr eigin barnæsku þegar ég er að reyna að leggja mannskapnum góðar og gildar lífsreglur. Þá heyri ég mig segja orðrétt sömu setningar og heyrðust frá foreldrum mínum og stjúpforeldrum, reglur sem ég hefði gjarnan viljað sleppa við á sínum tíma.

Ég man eftir tilhlökkun eftir að verða eldri, fá bílpróf og geta keyrt út í sjoppu og keypt kók og fílakaramellur án þess að spyrja kóng né prest (enda þekkti ég enga slíka). Og að þurfa ekki að taka til eftir sig. Enda er nákvæmlega það sama uppá teningnum nú rúmum tuttugu árum síðar þegar tiltekt er í kortunum, nema að ég er búin að skipta um hlutverk.

Þá breytast tápmikil börn, sem voru að enda við að sveifla sér í ljósakrónunum og heyja geggjað dansmaraþon á stofugólfinu, í lindýr sem geta varla hreyft legg né lið nema stynja og emja við áreynsluna. Ég tengi mjög við þessa umbreytingu, en samt sem áður sé ég sjálfa mig setja í brýnnar og biðja hina nýumbreyttu hryggleysingja að bíta á jaxlinn og taka saman Legó-kubbana.

Kannski er kominn tími til að uppfylla loforð við barnið mig svona öðru hverju. Kannski ég bjóði upp á kókosbollur í kvöldmatinn auk áhorfs á vel valið amerískt rusl.






×