Fastir pennar

Ráðherra hyggst klóra í bakkann

Sigurjón M. Egilsson skrifar
Íslensk stjórnvöld hafa ekki séð ástæðu til að verða við tilmælum Evrópunefndar gegn kynþáttafordómum þó þau teljist til forgangsverkefna. Slök frammistaða okkar er okkur til vansa. Okkur ber, án þrýstings annars staðar frá, að standa okkur í þessum málum. Annað er óviðunandi.

Í úttekt nefndarinnar eru stjórnvöld hér gagnrýnd fyrir tvennt; að annars vegar hafi þau ekki lokið vinnu við lagafrumvarp um bann við mismunun og hins vegar hafi þau ekki tekið upp í hegningarlög ákvæði um að meta beri til refsihækkunar ef kynþáttafordómar liggja að baki broti.

Hvers vegna stöndum við okkur svo illa að ýta þurfi við okkur, benda okkur á að við stöndum ekki við það sem höfum sagst ætla að gera? Og er þá ekki einfaldast að bæta úr því sem miður hefur farið?

Nefndin hefur verið upplýst um að Eygló Harðardóttir, sá ráðherra sem þetta heyrir undir, hyggist klóra í bakkann, en ekki meira en það, þá sennilega í von um að sleppa við frekari ákúrur. Hún ætlar að leggja fram tvö frumvörp um bann við mismunun. Hvorugt frumvarpið er að mati nefndarinnar fullnægjandi. Sú er frammistaða okkar sem þjóðar í baráttu gegn kynþáttafordómum, baráttunni gegn rasisma.

Séra Baldur Kristjánsson, fulltrúi Íslands í nefndinni, sagði í samtali við Fréttablaðið, að fjölmargar athugasemdir séu við stjórnsýsluna hér, en kosið var að horfa nú einkum til þess að annars vegar hafi stjórnvöld ekki lokið vinnu við lagafrumvarp um bann við mismunun og hins vegar hafi þau ekki tekið upp í hegningarlög ákvæði um að meta beri til refsihækkunar ef kynþáttafordómar liggja að baki broti.

Sem svar við þessu ætlar ráðherra sem sagt að leggja fram tvö frumvörp, sem eru ekki fullnægjandi að mati nefndarinnar. Annað frumvarpið snýst um bann við mismunun á öllum sviðum daglegs lífs, en gallinn er sá að það nær aðeins til mismununar vegna kynþáttar eða þjóðernisuppruna.

Hitt frumvarpið gerir ráð fyrir mismunun á víðtækari grunni, sem nær þá til trúar, skoðana, fötlunar, aldurs og kynhneigðar, en það bann á aðeins að gilda á vinnumarkaði en ekki á öðrum sviðum þjóðlífsins.

Taka verður fram að við fáum ekki bara slæm ummæli. Nefndin fagnar því að Ísland hafi gert úrbætur hvað varðar mosku á Íslandi. Stjórnvöld hafi orðið við tilmælum nefndarinnar um að gefa félögum múslima hér á landi heimild til að reisa mosku og jafnframt útvegað þeim lóð undir mosku. Þetta er nokkuð merkilegt, því að að þrátt fyrir hrós að utan þarf ekki að rifja upp hversu mikið deilumál moskubyggingin er meðal okkar.

Hvað þetta allt varðar er ljóst að við verðum að gyrða okkur í brók. Ekki dugar að ráðherra hyggist stíga hænufet, það þarf meira, við verðum að standa okkur með sóma.

En hver er þessi nefnd? „Þessi nefnd er tæki Evrópuþjóða til þess að efla baráttuna gegn rasisma,“ segir Baldur. „Hún var sett upp af ráðherranefnd Evrópuráðsins fyrir 18 árum.“






×