Fastir pennar

Kvótinn stendur í ríkisstjórninni

Sigurjón M. Egilsson skrifar
Ekki kemur á óvart að ósætti sé milli ríkisstjórnarflokkanna um hver framtíðarstefnan eigi að vera í sjávarútvegsmálum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur ítrekað þá skoðun Framsóknarflokks að auka eigi þann hluta kvótans sem nýttur er til félagslegra úrræða. Sjálfstæðismenn eru allt annarrar skoðunar. Ekkert eitt mál mun ganga nær stjórnarsamstarfinu.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir meðal annars: „Stuðst verður áfram við þau félagslegu, byggðalegu og atvinnulegu úrræði sem gildandi fiskveiðistjórnarlöggjöf kveður á um. Í samráði við sveitarstjórnir og samtök í sjávarútvegi verður fyrirkomulag þessa endurskoðað.“ Þetta á að endurskoða. Framsókn vill auka þennan hlut meðan samstarfsflokkurinn vill það ekki. Þess vegna er varaformaður Framsóknarflokksins, sjávarútvegsráðherrann, í klípu. Hann getur ekki lagt fram þetta stóra mál. Hefur ekki nægan stuðning hjá ríkisstjórninni og veit því ekki hver afdrif þess geta orðið.

Þegar verið er að gæta hagsmuna fárra vilja hugsjónirnar oft víkja. Framtíð kvótans og laga um hann er dæmigert fyrir þá stöðu. Átök eru fram undan og þau kunna að verða hörð. Ekki síst milli stjórnarflokkanna. Eftir því sem dregst að koma málinu til Alþingis dregur úr möguleikum þess að ná fram breytingu á lögunum. Sem er óskastaða margra.

Alþingi á aðeins eftir þrjátíu og átta fundardaga áður en kemur að sumarhléi. Ef vel á að fara verður þingið að taka sig á. Auk þess að eiga eftir að fjalla um kvótalögin bíða mörg önnur mál og brýn. Og svo eitt mál, sem verður fyrirferðarmikið, en ekki brýnt. Ríkisstjórnin er beitt þrýstingi frá bakvörðum ríkisstjórnarinnar um að slíta aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Ekkert kallar á þá aðgerð. Umsóknin er í svefni og truflar ekki gang samfélagsins á nokkur hátt. Hún truflar fáa en fyrirferðarmikla. Þeir munu ekki líða annað en að umsóknin verði dregin til baka.

Ríkisstjórnin á grýtta leið fyrir höndum. Andstaða er innan þings og ekki síður utan þess. Ríkisstjórnin er eflaust minnug andstöðunnar við sama mál í fyrra. Þá flykktist fólk að þinghúsinu og krafðist að stjórnmálamenn virtu eigin kosningaloforð. Engin ástæða er til að ætla að það verði ekki gert nú.

Segja má að þeir sem harðast sækja að ríkisstjórninni, um að hún fari á móti straumnum og dragi umsóknina til baka, séu sama fólk og á mestra hagsmuna að gæta í að kvótalögin breytist sem minnst, og helst ekkert. Kannski eru þetta tilviljanir. Trúlega þó ekki.

Alþingi á til þess að gera fáa fundardaga eftir. Hvort þeir verða nýttir til að koma áfram þjóðþrifamálum eða til að láta að vilja bakvarða ríkisstjórnarinnar, ekki síst Sjálfstæðisflokksins, kemur síðar í ljós.

Staðan er alvarleg. Ríkisstjórnin er á eftir með mörg mál. Til að mynda húsnæðismálin. Eftir þeim er beðið. Samt má búast við að freku karlarnir ráði för og brýn mál víki fyrir hagsmunum fárra og dag eftir dag verði þingið upptekið vegna sofandi umsóknar að Evrópusambandinu. Þá verður knöppum tíma þingsins illa varið.






×