Innlent

Naumur tími til stefnu í loftlagsmálum

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Landsvirkjun bauð til opins fundar þann í dag  um hnattrænar loftlagsbreytingar og hvernig fyrirtæki geta unnið gegn áhrifum þeirra.

Samkvæmt vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar er því spáð að hitastig muni að óbreyttu hækka um tvær til fjórar gráður á Celsius á næstu hundrað árum en það á sér ekki hliðstæðu í loftslagssögu jarðar. Skammur tími er til stefnu að ráða bót á loftlagsmálum eða um fimmtán ár að mati sérfræðinga.

Halldór Þorgeirsson, forstöðumaður stefnumörkunar hjá skrifstofu Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftlagsbreytingar, segir mjög mikilvægt að halda heimshlýnun innan við tvær gráður. „Það er mjög mikilvægt að halda heimshlýnuninni innan tveggja gráða. Hlýnunin er að nálgast eina gráðu. Eftir því sem hlýnar meira er áhættan meira. Það er sameiginleg niðurstaða allra stjórnvalda að það er of mikil áhætta að hlýnunin fari umfram tvær gráður.“

Ef að ekkert er gert verður hlýnunin mun meiri en tvær gráður með skelfilegum afleiðingum. Halldór segir enn tækifæri til að koma í veg fyrir verstu afleiðingar loftlagsbreytinga.

„Staðreyndin er sú að ef við grípum ekki til aðgerða núna þá mun hlýnunin verða mun meiri en tvær gráður. Við höfum hins vegar enn þá tækifæri til að koma í veg fyrir verstu afleiðingar loftlagsbreytinga. Það er miklu meiri skilningur á þessu núna. Atvinnulífið er að taka þetta mjög föstum tökum, borgir eru að setja þetta inn í alla sína stefnumörkun. Langtímafjárfestar eru farnir að taka fjármagn út úr jarðefnavinnslu og setja sitt fjármagn í orkugjafa framtíðarinnar. Þessar breytingar eru raunverulega að byrja og eiga eftir að gerast mjög hratt,“ segir Halldór.

Halldór segir skamman tíma til stefnu, aðeins fimmtán ár .„Næstu fimmtán ár eru úrslitaár, það er alveg ljóst að heimslosunin þarf að ná hámarki fyrir 2030.“

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir Íslendinga þurfa að minnka losun og taka upp umhverfisvænni hætti. „Við erum með mjög mikla losun á hvern íbúa hér á Íslandi þrátt fyrir alla þessa hreinu orku. Við þurfum að minnka það, við þurfum að leita leiða til að aka minna á bílum og aka meira á strætisvögnum og hjóla.“

Hann spyr hvernig íslensk stjórnvöld ætli sér að vernda þá hagsmuni sem nú er ógnað við Íslandsstrendur með súrnun sjávar. „Hvernig ætlum við að vekja athygli á brýnni þörf þess að draga úr súrnun sjávar. Eina leiðin til þess að draga úr henni er að draga úr losun koltvísýrings.“

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að hann telji að öll fyrirtæki og einstaklingar líka þurfi að taka þátt í þessu. „Við sem þjóð, þótt að við séum aðeins 330 þúsund manns, þá höfum við hlutverk. Í raun getum við lagt meira af mörkum en flestir út af okkar náttúruauðlindum. Það sem við sem fyrirtæki stefnum að því að gera nú á fimmtíu ára afmælisári að setja fram tímasetta áætlun um hvernig við náum kolefnisjöfnuð fyrir okkar fyrirtæki. Þannig að við fáum jafn mikla bindingu og þá losun sem fylgir okkar starfsemi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×