Fastir pennar

Allt eða ekkert?

Kristín Þorsteinsdóttir skrifar
Þegar fjallað er um Ríkisútvarpið mætti stundum ætla að einungis væru tveir kostir í stöðunni – óbreytt Ríkisútvarp eða ekkert Ríkisútvarp. Þetta er dæmi um hvernig umræðan þróast þegar hún litast um of af áróðri.

Ísland er ekki eina landið í heiminum þar sem deilt er um starfsemi ríkisfjölmiðla í breyttu umhverfi eins og mætti ætla af málflutningi áköfustu fylgismanna Ríkisútvarpsins. Enginn friður ríkir um svokallaða almannafjölmiðla í nálægum löndum. Sjálft flaggskip almannaútvarps, BBC í Bretlandi, þarf að bregðast við breyttum tímum og herða sultarólina.

BBC hefur verið gert að ráðast í gífurlegan sparnað. Fyrstu skrefin hafa verið stigin nú þegar. Framboð á íþróttaefni verður skorið niður svo um munar. Þar er byrjað vegna þess að einkastöðvar sinna íþróttum betur en ríkismiðillinn, að dómi fólksins í landinu samkvæmt könnunum. Enda hafa margar einkastöðvar sérhæft sig í íþróttaviðburðum.

Fram kom í Markaði Fréttablaðsins nýlega að BBC hefur nú þegar gefið eftir réttinn að opna breska meistaramótinu í golfi. Kappaksturskeppnir munu hljóta sömu örlög, enda vandséð af hverju ríkið á að sjá fólki fyrir slíkri afþreyingu frekar en einhverri annarri.

Þegar rekstrartölur BBC eru skoðaðar fær kenningin um tregðu ríkisfyrirtækja til hagræðingar byr undir báða vængi. Þar er kostnaður vegna markaðsstarfs – vegna svokallaðra fjölmiðlafulltrúa og almannatengla – margfaldur á við sambærileg útgjöld einkastöðvanna. Einnig er launakostnaður miklu hærri. Munurinn fer vaxandi þrátt fyrir að harðnað hafi á dalnum.

BBC þarf því að berjast við ýmis innanhússmein eins og önnur fyrirtæki. Þó að á það sé bent dettur fáum í hug að í því felist einhver sérstök óvild í garð almannaútvarps. Sama á við um Ríkisútvarpið hér á landi.

Þó að rómuðustu dagskrárliðir BBC afli því virðingar er vert að hafa í huga að fyrir hvern náttúrulífsþátt Sir Davids Attenborough er fjöldi útsendinga frá hæfileikakeppnum og spjallþáttum. Erfitt er að réttlæta ríkisstuðning við slíkt.

Undanfarna daga hefur Fréttablaðið birt fjölda aðsendra greina frá fólki sem telur að Ríkisútvarpinu vegið. Sumar eru málefnalegar en aðrar ekki, eins og gengur. Álíka greinar hafa birst í öðrum fjölmiðlum þannig að engum dylst að á ferðinni er skipulögð áróðursherferð í miðjum fjárlagaslag. Og við sem störfum á einkareknu miðlunum þurfum endalaust að sitja undir meinfýsnum árásum um óvönduð vinnubrögð. Þeir svokölluðu stuðningsmenn, sem lengst ganga, gera Ríkisútvarpinu engan greiða.

Flestir Íslendingar telja að við þurfum á Ríkisútvarpi að halda. Auðvelt er að færa rök fyrir því. Þar er byggt á dýrmætum hefðum, sem æskilegt er að viðhalda. Hins vegar á almannafjölmiðill að sníða sér stakk eftir vexti og sinna því vel sem réttlætir niðurgreiðslu með skattfé. Hann á ekki að standa í samkeppni við einkamiðla um afþreyingarefni og ekki stunda auglýsingasölu.


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.