Körfubolti

Einar Árni fær tækifæri til að vinna bæði Njarðvík og Friðrik Inga í fyrsta sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einar Árni Jóhannsson þegar hann þjálfaði Njarðvíkurliðið.
Einar Árni Jóhannsson þegar hann þjálfaði Njarðvíkurliðið. Vísir/Anton

Einar Árni Jóhannsson mætir með Þórsliðið í Ljónagryfjuna í Njarðvík í kvöld en Njarðvík og Þór úr Þorlákshöfn mætast þá í 9. umferð Domino´s deildar karla í körfubolta.

Einar Árni er á sínu fyrsta tímabili með Þórsliðið en hann er Njarðvíkingur sem hefur á einhverjum tímapunkti þjálfað flesta ef ekki bara alla uppalda körfuboltamenn Njarðvíkinga undanfarin fimmtán ár.

Einar Árni hefur aldrei unnið Njarðvík eða Friðrik Inga Rúnarsson í úrvalsdeildinni en Þórsliðið vann öruggan sigur á Njarðvík undir hans stjórn í Lengjubikarnum í haust.

Einar Árni hefur þjálfað Njarðvíkurliðið á sex og hálfu tímabili í úrvalsdeild karla, fyrst frá 2004 til 2007 og svo aftur frá 2011 til 2014.

Þetta verður aðeins þriðji leikur hans sem þjálfari mótherja Njarðvíkur í úrvalsdeild karla en Einar Árni stýrði Blikum tvisvar á móti Njarðvík í úrvalsdeildinni veturinn 2008 til 2009.

Njarðvíkurliðið vann báða leikina, fyrst 107-103 eftir framlengdan leik í Smáranum og svo 111-78 í Ljónagryfjunni,

Einar Árni hefur heldur ekki náð að vinna Friðrik Inga Rúnarsson í úrvalsdeild karla en Einar Árni var aðstoðarþjálfari Friðriks hjá Njarðvík á sínum tíma og saman urðu þeir Íslandsmeistarar vorið 1998.

Einar Árni stýrði Njarðvík tvisvar á móti liði Friðriks Inga tímabilið 2005-06 þegar Friðrik Ingi var með Grindavíkurliðið.

Friðrik Ingi og lærisveinar hans í Grindavík unnu báða leikina eftir framlengingu, fyrst 105-106 í Njarðvík og svo 112-116 í Grindavík.

Einar Árni hefur aftur á móti unnið nokkra leiki á móti Teiti Örlygssyni, aðstoðarþjálfara Njarðvíkur, þegar Teitur þjálfaði Stjörnuna og Einar Árni var með Njarðvík eða Blika.

Það fara þrír aðrir leikir fram í Domino´s deild karla í kvöld. Snæfell tekur á móti ÍR í Hólminum, Stjörnumenn heimsækja Hött á Egilsstaði (klukkan 18.30) og Haukar taka á móti Grindavík á Ásvöllum.

Umferðinni lýkur svo á morgun með leikjum Keflavíkur og FSU í Keflavík og leik KR og Tindastóls í Vesturbænum en sá síðarnefndi verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Umferðin verður síðan gerð upp í Körfuboltakvöldi sem hefst klukkan 22.00 annað kvöld.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.