Innlent

Ingó Veðurguð segir það mikil mistök að hafa farið í sund

Jakob Bjarnar skrifar
Ingó veit ekki hvort hann átti frumkvæðið, hann var í það minnsta ekki á bremsunni þegar vinahópurinn ákvað að drífa sig í pottinn í leyfisleysi.
Ingó veit ekki hvort hann átti frumkvæðið, hann var í það minnsta ekki á bremsunni þegar vinahópurinn ákvað að drífa sig í pottinn í leyfisleysi. visir/stefán
Frétt af ákæru á hendur tónlistarmanninum Ingólfi Þórarinssyni, Ingó Veðurguð, og fleirum vakti verulega athygli í gær; en mennirnir eru ákærðir fyrir húsbrot. Það var í apríl í fyrra sem Ingó og vinahópur hans í Eyjum ákvað, í góðu glensi, að bregða sér að næturlagi í sund. 

Árni Johnsen komst upp með miklu meira

Þeir hefðu betur sleppt því vegna þess að lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur gefið út ákæru á hendur Ingó og félögum hans.

Ýmsir hafa orðið til að tjá sig um málið á samfélagsmiðlum og þykja þetta heldur harkalegar ráðstafanir. Einn þeirra er Einar Bárðarson, fyrrverandi umboðsmaður með meiru, sem segir á sinni Facebooksíðu:

Aumingja Ingó ! Mér finnst eins og Árni Johnsen hafi fengið að komast upp með miklu meira þegar hann var með Brekkusöngin :-)

Posted by Einar Bardarson on 14. október 2015
Er gerður góður rómur að þeim hugleiðingum Einars.

Ingó iðrast

Ingó segir, í samtali við Vísi, að hann hafi fundið fyrir stuðningi vegna málsins, fólki finnist það hart að hann eigi að fara fyrir dóm vegna þessa atviks.

„En, að sama skapi, maður á ekkert að vera að gera svona,“ segir Ingó sem iðrast: „Það hefði verið fínt ef það hefði verið hægt að sjatla þetta mál. Semja um það. Ég sé eftir því að hafa verið að dröslast þarna inn í einhverjum partígír, mikil mistök, en það hefði verið fínt að geta bætt öðru vísi fyrir þetta en vera ákærður, ef það hefði verið hægt að finna einhverja að leið út úr þessu, og þá samið um þetta klúður.“

Ingó segir ljóst að fréttin hafi vakið mikla athygli; félagarnir hafi verið að hnippa í sig og fjölskyldan hafi einhverjar áhyggjur af þessu. „En, ég vona að málin sjatlist fyrir dómi. Ég veit náttúrlega ekkert hvernig verður dæmt í þessu.“

Líklega á að gera fordæmi úr Ingó

Ingó veit ekki hvenær dómur fellur, fyrirtaka er búin og enginn hinna ákærðu mætti við hana, en þeim hafði verið sagt að með því væru þeir að gangast við brotinu. „Þá er bara að sætta sig við þennan dóm þegar hann fellur. Ég hef ekki hugmynd um hvernig fordæmi eru í máli sem þessu, maður bara vonar það besta.“

Ljóst er að sú tíð er liðin að rokkarar fóru um, rústuðu hótelherbergjum og hentu sjónvörpum út um glugga, nú eru menn ákærðir fyrir að fara í sund?

„Já, þetta var aðeins harðara í gamla daga. En, þetta er lögbrot og ekki til eftirbreytni. Mér dettur í hug að nú þegar þekktur maður næst fyrir svona nokkuð, þá eigi að gera fordæmi úr því. Að þetta teljist ágætis auglýsing fyrir því að þetta sé bannað. En, það hefur nú verið fremur mikil lognmolla í kringum mína hljómsveit, kannski helst maður sjálfur sem dansar á línunni.“

Vont að lenda á sakaskrá fyrir sundlaugarferð

Félagar Ingó eru fótboltamenn og sjómenn og úr öllum stéttum, Eyjamenn. „Þeir eru náttúrlega miður sín yfir að hafa verið ákærðir og sjá eftir þessu eins og ég. Eins og áður sagði, við vorum að vona að það væri hægt að sjatla málin áður en til ákæru kæmi. Sumir eru ósáttir. Þetta er lítið samfélag, allir þekkja alla og menn eru pirraðir að lenda á sakaskrá. Ef menn eru til dæmis að mennta sig sem lögfræðingar, þá er ekki gott að vera kominn á sakaskrá fyrir húsbrot.“

Næsti hittingur vinahópsins verður líkast til í réttarsalnum, á Hrauninu í versta falli.visir/arnþór
Ingó segir að þetta sé sami ákæruliður og ef menn brjótist inn til einhvers. Og hann gerir ráð fyrir því að refsiramminn sé svipaður. „Já, þetta er fremur svekkjandi fyrir svona sundlaugarferð, en ég tek það fram að þetta er ekki til eftirbreytni, menn sjá eftir þessu og finnst þetta leiðinlegt.“

Fóru í sundið í góðu glensi

En, hvað gerðist eiginlega þarna nóttina „góðu“ í Eyjum, í apríl fyrir ári. „Þetta var bara hópur af hressum félögum sem ákvað að hittast um páskana,“ segir Ingó: „Það var farið út að borða, svo farið á pöbbinn, svo eitthvað annað og svo ákvað einhver að það gæti verið gæti verið sniðugt að fara í sund. Ég veit ekki hvaða snillingi datt það í hug? Veit ekki hvort það var ég sem átti frumkvæðið, maður var í það minnsta ekki á bremsunni, þetta var sameiginleg ákvörðun.“

Ingó var sem sagt ekki að spila í Eyjum, hann hafði verið að skemmta kvöldinu áður og svo var ákveðið að drífa sig til Eyja til að hitta vinahópinn. „Þetta var einhver fílingur. Næsti hittingur verður sennilega í réttarsalnum. Á Hrauninu, í versta falli.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×