Jól

Mikil og rík hefð fyrir jólaglögginni

Lilja Björk Hauksdóttir skrifar
Steinunn Vala ólst upp við að ilmur af jólaglögg fyllti hús á aðventunni.
Steinunn Vala ólst upp við að ilmur af jólaglögg fyllti hús á aðventunni. GVA
„Það hefur alltaf verið mikið gert úr aðventunni í minni fjölskyldu og mikill gestagangur á heimilinu. Ég kann svo vel við það þegar fólk rekur inn nefið heima hjá mér án þess að hafa skipulagt það endilega, best þykir mér að fólk vaði bara inn, bjargi sér sjálft um alla hluti og fleygi sér svo í sófann. Mér þykir ofsalega gott að hafa fólk í kringum mig en er því miður ekki sérlega iðin við bakstur,“ segir Steinunn Vala Sigfúsdóttir skartgripahönnuður, sem hannar undir merkinu Hring eftir hring.

„Á aðventunni, þegar ég var barn, var útbúin jólaglögg í tveimur pottum á eldavélinni, í öðrum var alvöru glögg fyrir fullorðna með rauðvíni í og í hinum heitur og bragðgóður eplasafi fyrir börnin. Ég man hvernig glöggin fyllti húsið af jólailmi þessar aðventuhelgar, svo var verið að stússast í öllu því sem viðkemur jólunum, pakka inn gjöfum, skrifa jólakort, laga til og skreyta. Ég veit ekki hvaðan hefðin fyrir jólaglögginni kemur, hvort hún er frá afa og ömmu sem bjuggu um tíma í Svíþjóð eða þetta hafi bara verið í tísku hjá foreldrum mínum á þessum árum. En mér þykir hefðin góð og við systkinin viðhöldum henni. Við bjóðum til að mynda alltaf upp á glögg á vinnustofu Hring eftir hring í desember, til að ylja vinum okkar og vandamönnum sem reka inn nefið í jólagjafahugleiðingum.“

Hefðin fyrir jólaglögginni var svo sterk í fjölskyldu Steinunnar að hún hélt lengi vel að það tíðkaðist almennt að bjóða upp á hana fyrir jólin. „Mér finnst þetta svo jólaleg hefð en tek það fram að við liggjum ekki í henni, einn heitur lítill bolli er mátulegur á mann því glöggin er nokkuð bragðsterk. Með henni passa piparkökurnar best og sneið af hvítum mygluosti er dásamlega góð viðbót við piparkökuna líka.“Jólaglögg ásamt piparkökum og hvítum mygluosti er í boði fyrir gesti Steinunnar Völu á aðventunni.
Jólaglögg 

Botnfylli vatn

Börkur af hálfri appelsínu

Börkur af þriðjungi af sítrónu

1 appelsína

Tvær kanilstangir

Tvær kardimommur (muldar)

8 negulnaglar / appelsína með negulnöglum

½ bolli rúsínur

½ bolli möndlur

1 flaska rauðvín

Púðursykur eftir smekk

Púrtvín (ef vill)

Botnfylli vatns er sett í pott ásamt rifnum sítrónuberki og appelsínuberki. Ein appelsína kreist og safinn úr henni settur út í líka. Kanilstöngum og kardimommum er bætt við. Negulnöglum stungið í appelsínu og hún sett út í líka en einnig má sleppa appelsínunni og setja eins og 8 staka negulnagla út í. Rúsínum og möndlum bætt í. Blandan er soðin í nokkrar mínútur eða þangað til rúsínurnar bólgna út. Þá er um það bil einni rauðvínsflösku bætt út í ásamt púðursykri eftir smekk eða þannig að blandan verði þægilega sæt. Eftir að rauðvínið er komið út í þarf að gæta þess að glöggin sjóði ekki en henni þarf þó að halda vel heitri því þannig er hún best. Glöggina má styrkja með smá púrtvíni.

Jólaglöggina má einnig hafa óáfenga með því að nota óáfengt rauðvín. Heitur eplasafi

Eplasafi 

½ bolli rúsínur

½ bolli möndlur (má sleppa)

1 kanilstöng 

1 appelsína með negulnöglum

Eplasafinn er hitaður í potti, setjið rúsínur, möndlur, kanilstöng og appelsínu, sem negulnöglum hefur verið stungið í, út í eplasafann. Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.