Fastir pennar

Google og heilsa fólks

Teitur Guðmundsson skrifar
Það kemur kannski engum á óvart að internetið sé orðið stærsti vettvangur samskipta í heiminum í dag. Fyrir nútímafólk er óhugsandi að hafa ekki öfluga leitarvél við höndina sem hægt er að spyrja um hvað sem er og fá svarið á svipstundu. Ef það er ekki á netinu þá er það ekki til sagði einhver. Hægt er að spyrja ráða á spjallborðum, Facebook-grúppum og býsna víða um nánast allt milli himins og jarðar. Þá eru líka til sérstakar vefsíður eins og til dæmis doktor.is sem gera út á leiðbeiningar og fræðslu svo dæmi séu tekin. Stór hluti þekkingar í dag kemur í gegnum netið, Youtube er ótrúlegur miðill og flest myndbönd þar inni byrja sennilega á „how to…“.

Aðalkosturinn við internetið er að allir sem vilja geta sett inn efni þangað, sem er einnig meginvandinn við mjög mikið af þeim upplýsingum sem þar er að finna. Því var einhvern tímann fleygt að algengustu leitaratriði á Google væru tengd kynlífi og klámi annars vegar og hins vegar heilsu, heilbrigði og sjúkdómum. Ekki veit ég hvort það er rétt, en ljóst er að sjúklingar og almenningur í dag nota netið sem aldrei fyrr og fá þar bæði góða og slæma ráðgjöf. Það getur verið erfitt að meta fyrir þann sem ekki hefur yfirsýn og þekkingu hvort þær upplýsingar sem settar eru fram séu í lagi eða ekki. Þó má ekki gleyma því að á sama tíma getur enginn fylgst með öllu sem nýtt er. Ættu læknar því að fagna því ef sjúklingar nýta netið, koma með tillögur eða vilja ræða meðferð sína út frá þeirri þekkingu sem þeir hafa aflað sér. Í sumum tilvikum getur slíkt valdið togstreitu milli aðila, en báðir þurfa að muna að það er samstarfsverkefni að lækna og líkna.

Nú þegar hefur Google frændi gífurleg áhrif á heilsu fólks með beinum og óbeinum hætti. Hann ber ekki ábyrgð á upplýsingunum, en hann er sá sem leitar þær uppi og birtir þeim sem slá inn leitarorðin. Ekki á samræmdan hátt heldur samkvæmt hegðunarmynstri viðkomandi notanda og því hvert tölva hans hefur ferðast á óútskýranlegum vegum internetsins. Þannig má segja að upplýsingunum sé miðlað meðvitað, en einstaklingurinn getur verið ómeðvitaður um það og þannig er hegðun hans að vissu leyti stýrt. Þetta sést best á auglýsingum á netinu sem tengjast leitarvélinni og þeirri gervigreind sem þegar er notuð til að lesa í notkun notandans.

Með þessu móti hefur fyrirtækið orðið eitt það stærsta og ríkasta í heimi, að selja notendamiðaðar auglýsingar og aðgengi að notendum. Fyrirtækið er svo ríkt að það hefur á undanförnum árum sett á laggirnar svokölluð tunglskotsverkefni (moonshot) þar sem miklu er kostað til án þess að vera í nokkurri vissu um hvort þessi verkefni beri ávöxt. Sumir kynnu að kalla þetta gæluverkefni eða hreint brjálæði, öðrum þykir þetta tær snilld. Verkefnin falla undir Google X, en þar á meðal eru sjálfkeyrandi bílar, Google-gleraugun, loftbelgir sem eiga að koma netsambandi á fjarlæga staði, augnlinsur sem mæla blóðsykur og síðast en ekki síst hin nýja Baseline Study. Þar er meiningin að kanna líkama fólks með það fyrir augum að geta sagt fyrir um sjúkdóma og myndun þeirra betur en við getum í dag og ýta undir forvarnir.

Í samvinnu við nokkra háskóla í Bandaríkjunum og nokkra tugi vísindamanna er meiningin að safna saman eins miklum upplýsingum um einstaklinga og mögulegt er á sviðum sameindalíffræði og erfðafræði auk margra annarra sviða og nota síðan þá yfirburðareiknigetu sem Google ræður yfir til að vonandi finna það hvað skilgreinir heilbrigða manneskju. Með þessu eru þeir að eigin mati að leggja sitt á vogarskálarnar á sviði forvarna og heilsueflingar fyrir framtíðina með þá sýn að hægt verði að forða fólki frá sjúkdómum eða hindra þróun þeirra, jafnvel bæta meðferð þeirra sem þó munu veikjast.

Eflaust er hægt að skeggræða það hvers vegna akkúrat þetta fyrirtæki kýs að eyða milljörðum Bandaríkjadala í slíkar rannsóknir þar sem ósennilegt er að þeir muni verða framleiðendur lækningatækja, lyfja eða annarra slíkra þátta í framtíðinni, en hver veit? Öruggt er að Google frændi mun þekkja þig mun betur í framtíðinni en hann gerir í dag, hvort sem þér líkar það betur eða verr.






×