Körfubolti

Hildur í öðru veldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tveir af bestu leikmönnum deildarinnar. Hildur Björg Kjartansdóttir og Hildur Sigurðardóttir með deildarmeistaratitilinn sem Snæfell fékk í fyrrakvöld.
Tveir af bestu leikmönnum deildarinnar. Hildur Björg Kjartansdóttir og Hildur Sigurðardóttir með deildarmeistaratitilinn sem Snæfell fékk í fyrrakvöld. fréttablaðið/Óskaró

Lykilmenn kvennaliðs Snæfells eiga vissulega sitthvað sameiginlegt. Þær eru báðar harðir Hólmarar og heita báðar Hildur. Hildur Sigurðardóttir, fyrirliði og leikstjórnandi deildarmeistara Snæfells, og miðherjinn Hildur Björg Kjartansdóttir hafa átt einstakan vetur en þetta eru ólíkir leikmenn, hvor af sinni kynslóðinni í Stykkishólmi.

Hildur Sigurðardóttir er 32 ára gömul og sneri heim í Hólminn fyrir þremur árum eftir þrettán ára farsælan feril fyrir sunnan. Hún fór fyrst í ÍR fyrir fimmtán árum en hefur síðan unnið fjölmarga titla með KR og spilað sem atvinnumaður í Svíþjóð.

Hildur Björg Kjartansdóttir er 19 ára gömul og hefur verið að springa út sem einn besti leikmaður landsins á síðustu tveimur tímabilum. Hún vann sig inn í landsliðið á síðasta tímabili og hefur í vetur tryggt sína stöðu sem öflugasti miðherji deildarinnar.

Hildur eldri er á seinni hluta síns ferils og hefur nú tekist að hjálpa sínum heimabæ að landa fyrstu titlunum í sögu kvennaliðsins. Hildur yngri er hins vegar að hefja ferilinn og leiðin liggur líklega út fyrir landsteinana þegar þessu tímabili lýkur.

Komin heim með stóran titil
„Allir titlar eru skemmtilegir og eiga sína sögu og allt það. Ég er mikill Hólmari og það er því toppurinn að koma heim og landa svona stórum titli. Það verður aldrei tekið af mér að hafa hjálpað til við að ná þeim fyrsta í hús,“ sagði Hildur Sigurðardóttir, eftir að hún var komin með deildarmeistaratitilinn í hendurnar. Hún hafði unnið titilinn áður með KR-liðinu.

„Þetta er frábær árangur fyrir bæinn. Þetta er fámennur bær og það er ekkert gefið að ná í lið hérna. Við getum það svo sannarlega og erum með eitt af bestu liðunum á landinu. Við vorum ekkert endilega að stefna á deildarmeistaratitilinn í vetur þegar við hófum mótið. Fljótlega sáum við að við ættum góðan möguleika á því,“ segir Hildur.

Hildur hefur spilað í kvennadeildinni síðan haustið 1998 og hefur alltaf verið óhrædd við að fórna skrokknum fyrir málstaðinn. „Ég þoli ýmislegt,“ segir Hildur í léttum tón og bætir við: „Skrokkurinn er nokkuð góður. Ég sleppi stundum nokkrum æfingum en aðallega vegna þreytu út af vinnu og öðru. Ég tek því stundum rólega á æfingu þannig að ég geti gefið allt í leikina. Það er nóg eftir á tankinum fyrir úrslitakeppnina,“ segir Hildur.

Spila betur með hverjum mánuði
Hildur yngri er alltaf að vaxa og dafna sem leikmaður og sem dæmi um það er framlag hennar í febrúarmánuði nær tíu stigum hærra en í október þegar hún var reyndar að koma til baka eftir aðgerð í sumar.

Snæfellsliðið hefur enn fremur ekki tapað deildarleik síðan hún sneri til baka eftir mánaðarleyfi í byrjun desember.

Hildur eldri var einnig að skila sínum besta mánuði á tímabilinu í febrúar og er að gæla við þrennuna að meðaltali en í fimm leikjum í febrúar var hún með 16,8 stig, 8,8 fráköst og 7,6 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hildur hækkaði jafnframt framlag sitt fjórða mánuðinn í röð.

Snæfellsliðið hefur gerbreyst við komu Hildar Sigurðardóttur í Hólminn. Liðið vann „bara“ 8 af 20 leikjum á tímabilinu fyrir komu hennar en hefur síðan bætt sig jafnt og þétt með hverju tímabilinu.

„Hún kom með alla reynsluna sína hingað,“ segir Hildur yngri um nöfnu sína. Snæfell endaði í 3. sæti á fyrsta tímabilinu (16 sigrar í 28 leikjum), í öðru sæti í fyrra (21 sigur í 28 leikjum) og er nú búið að tryggja sér deildarmeistaratitilinn þegar fjórir leikir eru eftir (22 sigrar í 25 leikjum)

Hildur yngri var ánægð með deildarmeistaratitilinn. „Þetta er fyrsti stóri titilinn sem maður vinnur með meistaraflokki og núna veit ég hvernig þetta er,“ sagði Hildur yngri. Snæfellsliðið tapaði sínum fyrsta leik í tæpa þrjá mánuði þegar liðið lá á móti Haukum í bikarúrslitaleiknum, en allar eru tilbúnar til að halda áfram.

„Það var svekkelsi í nokkra daga en það var stutt í næsta leik þannig að við þurfum bara að fara að einbeita okkur að því að landa næsta titli. Við höfum spilað mjög vel en við vitum samt að það er heill hellingur sem hægt er að bæta hjá okkur. Við ætlum að reyna að laga það fyrir úrslitakeppnina,“ sagði Hildur yngri. Hildur eldri hrósar nöfnu sinni.

„Hildur Björg er mun yngri en ég og var enn á leikskóla þegar ég brunaði í bæinn til að læra og spila körfubolta. Á þeim árum gat maður ekki ímyndað sér að Snæfell ætti nokkurn tíma eftir að spila í efstu deild og hvað þá að vera á toppnum. Ég var búin að sjá hana spila áður en ég kom og sá að hún var mikið efni en var mjög ung og átti eftir að ná styrk. Þau ár sem ég hef spilað með henni þá hefur hún alltaf verið að bæta sig og er nú þegar orðin ein af bestu leikmönnum landsins. Hún er alltaf tilbúin að hlusta og læra,“ segir Hildur um nöfnu sína.

Snæfellsliðið er vissulega í góðum málum með Hildi í öðru veldi en auðvitað njóta þær stöllur liðsinnis fleiri sterkra leikmanna sem hafa hjálpað Snæfellsliðinu að vinna þrettán deildarleiki í röð og ellefu þeirra með tólf stigum eða meira.

Hvort Íslandsbikarinn komi vestur í kjölfar deildarmeistarabikarsins og fari norður fyrir Hvalfjörð í fyrsta sinn í 38 ár mun framtíðin hins vegar að leiða í ljós.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.