Körfubolti

Blóðið seytlar líklega út um rifu

Bræðurnir Helgi Már (t.v.) og Finnur Atli að loknum leik KR og Snæfells síðastliðið fimmtudagskvöld.
Bræðurnir Helgi Már (t.v.) og Finnur Atli að loknum leik KR og Snæfells síðastliðið fimmtudagskvöld. Vísir/KTD

„Ég er allur að koma til og finn mun á mér frá degi til dags,“ segir landsliðsmaðurinn Finnur Atli Magnússon. Miðherjinn spilaði tíu mínútur í tapi gegn KR í Dominos-deildinni í síðustu viku.

Tapið var hið þriðja í jafnmörgum leikjum Snæfells á árinu. Finnur Atli sat hjá í þeim fyrsta gegn Þór frá Þorlákshöfn og spilaði aðeins þrjár mínútur gegn Skallagrími. Kappinn glímir við blóðleysi.

„Læknarnir segja að ég hafi örugglega verið blóðlítill en ég hafi bara aðlagast því sem íþróttamaður,“ segir Finnur Atli aðspurður um orsök veikinda sinna.

„Svo datt ég svona rosalega niður að það leið næstum því yfir mig á einni æfingunni,“ segir Finnur Atli, sem einnig gat beitt sér minna en hann hefði kosið fyrir áramót sökum blóðleysis.

„Ég fer í speglun á þriðjudaginn (á morgun) og þá kemur í ljós hvað er að. Læknarnir halda að það sé einhver rifa þar sem blóðið seytli út hægt og rólega.“

Finnur Atli hefur verið í blóðgjöf tvisvar í viku og verður það í rúmar tvær vikur til viðbótar.

„Ég fæ járn í æð á spítalanum í Hólminum. Við gamla fólkið sitjum og ræðum um veðrið og fleira.“

Vonandi fær Finnur Atli bót meina sinna fyrr en síðar. Sá hávaxni er bæði lykilmaður í liði Snæfellinga og hefur verið í landsliðshópi Íslands í undanförnum verkefnum.
Snæfell situr í áttunda sæti deildarinnar og þarf að bæta sinn leik ætli liðið sér sæti í úrslitakeppninni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.