Harmageddon

Bombay Bicycle Club með tónleika í Hörpu í nóvember

Orri Freyr Rúnarsson skrifar
Bombay Bicycle Club verða í Hörpu 17.nóv
Bombay Bicycle Club verða í Hörpu 17.nóv
Nú hefur verið tilkynnt að hljómsveitin Bombay Bicycle Club muni halda tónleika í Hörpu þann 17.nóvember næstkomandi. Hljómsveitin er þessa daganna að fylgja plötunni So Long See You Tomorrow eftir en sú plata kom út fyrr á árinu og fór rakleiðis í efsta sæti á breska vinsældarlistanum og er ein af þeim plötum sem tilnefndar eru til hinna virtu Mercury verðlauna. Þetta verður í annað skipti sem hljómsveitin spilar hér á landi en hún kom fram á Iceland Airwaves árið 2010 og auk þess spilaði söngvarinn Jack Steadman órafmagnað á Hressingarskálanum árið 2012. Miðasala á tónleika Bombay Bicycle Club í Hörpu hefst á midi.is á þriðjudaginn.

Muse hafa nú hafið upptökur á næstu plötu sinni en trommari þeirra Dom Howard birti mynd á Instragram aðgangi sínum þar sem búið var að stilla upp trommusetti hans fyrir upptökurnar. Söngvarinn Matt Bellamy hefur þegar sagt að áætlunin sé að búa til hefðbundna rokkplötu með áherslu á gítar, bassa og trommur þar sem að hljómsveitin væri kominn með nóg af því að prufa nýja hluti í hljóðverinu. Ekkert hefur verið gefið upp um útgáfudag en líklegt þykir að platan komi út á næsta ári og er Muse t.d. talin vera ein af þeim hljómsveitum sem líklegastar eru til að koma fram á Glastonbury hátíðinni á næsta ári.

Sala á vínylplötum heldur áfram að aukast en nýjustu tölur í Bretlandi sýna að salan í ár er nú þegar orðin meiri en salan var í fyrra. Það sem af er þessu ári hafa selst 844.122 eintök af vínyplötum samanborið við 829.243 eintök yfir allt árið 2013. Er talið að salan fer yfir milljón eintök fyrir lok árs. Platan AM með Arctic Monkeys er söluhæsta vínylplata ársins þrátt fyrir að hún hafi komið út árið 2013. Jack White situr í öðru sæti með Lazaretto og endurútgáfa plötunnar Definitely Maybe með Oasis er svo í þriðja sætinu. Led Zeppelin eru í fjórða sæti listans með endurútgáfu af frumburði sínum á meðan að Royal Blood eru í fimmta sæti. Þrátt fyrir þetta er sala á vínylplötum einungis 3% af heildarsölu tónlistar.

Tónlistarmenn keppast nú við að hrósa Royal Blood en á tónleikum hljómsveitarinnar í San Francisco í vikunni mættu m.a. Lars Ulrich, Tom Morello og meðlimir Muse. Eftir tónleikana setti Tom Morello inn twitter færslu þar sem hann sagðist hafa séð framtíð rokksins og framtíðin héti Royal Blood. Lars Ulrich tók svo meðlimi Royal Blood í bíltúr og sýndi þeim húsið í Mrs. Doubtfire myndinni.

Hörku tónleikar verða á Gauknum í kvöld þegar að þungarokksveitin Alchemia fagnar útgáfu plötunnar Insanity. En hljómsveitin mun spila plötuna í heild sinni. Black Desert Sun sjá svo um upphitun. Húsið opnar klukkan 20:00 og tónleikarnir hefjast klukkan 22:30 og aðgangur er ókeypis. Af öðru tónleikahaldi má nefna tónleika Prins Póló sem verða í Bæjarbíó Hafnarfirði í kvöld en á morgun verður Prins Póló með barna- og unglingatónleika á sama stað. Dr. Gunni sér um upphitun á báðum tónleikunum og miðasala er á midi.is

Púlsinn minnir svo að sjálfsögðu á sérstaka maraþon útsendingu af Fótbolti.net sem verður á X-inu á morgun. Þar munu sérfræðingar þáttarins fara vel yfir lokaumferð Pepsi deildarinnar með sérstaka áherslu á leik FH og Stjörnunar. En þátturinn mun standa yfir frá 12 – 18 á morgun hér á X-inu 977.








×