Innlent

„Hann hótaði að drepa mig“

Vísir skrifar
Ewa segist hafa fengið nálgunarbann á manninn sem ekki hafi verið virt.
Ewa segist hafa fengið nálgunarbann á manninn sem ekki hafi verið virt. visir/magnúshlynur/aðsendar
Barnsmóðir manns sem situr nú í gæsluvarðhaldi vegna gruns um íkveikju á Selfossi í fyrradag segir hann hafa verið fyrir utan íbúð sína nóttina áður en kviknaði í. Hún segist hafa fengið nálgunarbann á hann sem ekki hafi verið virt.

„Það er búið að vera vesen síðan 2012, þegar hann réðist á mig fyrst,“ segir Ewa Bjarnadóttir, en hún var búsett í íbúðinni sem brann, ásamt þriggja ára syni sínum og meðleig janda.

„Þá fékk ég nálgunarbann á hann í tvo mánuði en svo heimskaðist ég til að byrja með honum aftur,“ segir Ewa í samtali við Vísi.

Það var íbúi á efri hæð hússins, sem er við Birkivelli, sem vaknaði við sprengingu og hafði í kjölfarið samband við slökkvilið. Ekki urðu slys á fólki, enda var enginn í íbúðinni, en mikið eignatjón varð, bæði af völdum elds og reyks.


Íbúðin við Birkivelli er gjörónýt eftir brunann.mynd/aðsend
„Hann kúgaði mig allan tímann og á endanum henti ég honum út,“ segir Ewa.

„Þá hótaði hann að drepa mig. Hann er snargeðveikur. Annað hvort elskar hann mig út af lífinu eða þá að ég er hóra og drusla og ömurleg manneskja. Ég er búin að þurfa að eiga við þetta síðan síðasta sumar. Núna í janúar snappaði hann og réðist á mig. Þá fékk ég tólf mánaða nálgunarbann á hann og hann hefur ekki látið mig í friði. Hann var einmitt fyrir utan íbúðina mína nóttina áður en kveikt var í.“

Ewa segist hafa haft samband við lögreglu sem hafi sagt henni að vera annars staðar.

„Ég fór út úr íbúðinni og svo bara þremur tímum seinna hringdi löggan og sagði mér að það væri kviknað í.“

Maðurinn var í gær úrskurðaður í gæsluvarðhald til miðvikudagsins 5. mars en rannsókn málsins stendur nú yfir. Lögreglan biður alla þá sem telja sig hafa upplýsingar sem varða málið að hafa samband í síma 480 1010.




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×