Harmageddon

Krefjast þess að strætóskýlinu verði skilað

Andri Þór Sturluson skrifar
Það er eins og skýlið hafi bara gufað upp. Er þetta verk Reykjavíkurborgar, Strætó eða skipulagðra glæpasamtaka?
Það er eins og skýlið hafi bara gufað upp. Er þetta verk Reykjavíkurborgar, Strætó eða skipulagðra glæpasamtaka?
„Hversu langt er þess að bíða að fyrsti Íslendingurinn verði úti við Þjóðminjasafnið vegna skýlisskorts?“ spyr áhyggjufullur borgari á samfélagi Íslendinga á Redditr/Iceland.

Svo virðist sem mikilvægt strætóskýli við Þjóðminjasafnið hafi verið fjarlægt og eru margir í sárum vegna þessa. Í opnu bréfi til íslensku þjóðarinnar þar sem vakið er athygli á þessari ósvífni segir:

„Kæru Íslendingar!

Vegna kvartana yfir reykingum í strætóskýli við Þjóðminjasafnið var skýlið fjarlægt. Ég krefst þess að skýlinu verði skilað, ég vænti þess ekki að þeim sem kvörtuðu yfir reykingunum þyki þetta ásættanleg niðurstaða.

Þetta er eins og barn sé skorið í tvennt í forræðisdeilu...og báðum hlutunum hent í ruslið, allir tapa.

Ég er búinn að pósta þessum texta á Strætó, Jón Gnarr og Reykjavíkurborg, auk þess sem margir hafa tekið undir og póstað tagginu #skiliðskýlinu2014 á síður fyrrnefndra aðila. Ef þið notið strætó, og finnst þetta fáránlegt, mynduð þið þá vera svo góð að styðja þennan málstað með því að pósta þessu taggi eða eigin texta á síður ofangreindra.“



Gat nú verið. Hinar stórhættulegu reykingar láta til skara skríða enn á ný og verða til þess að eina skjólið sem veðurbarðir notendur almenningssamgangna á þessu svæði hafa er fjarlægt og afleiðingarnar eru stóraukinn kostnaður við húfu og vettlingakaup. Ekki aðeins þurfa ferðalangar að bíða í von og ótta á hverjum degi hvort strætisvagn komi á réttum tíma heldur bætist nú við barátta við veðuröflin.

Svo virðist sem Strætó hafi fríað sig ábyrgð og bendi á Reykjavíkurborg sem aðal sökudólg í þessu hvarfi og lögreglan gerir ekkert.








×