Jól

Jólasveinamöffins Unnar Önnu

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Unnur Anna Árnadóttir er forfallinn sælkeri og fær útrás fyrir sköpunarkraftinn á blogginu Cakesofparadise.wordpress.com
Unnur Anna Árnadóttir er forfallinn sælkeri og fær útrás fyrir sköpunarkraftinn á blogginu Cakesofparadise.wordpress.com
Unnur Anna Árnadóttir, menntaskólanemi á Akureyri, er forfallinn sælkeri. Hún heldur úti matarblogginu Cakes of Paradise og fyllir marga kökubauka af ilmandi smákökum og sælgæti fyrir hver jól ásamt mömmu sinni.

"Ég bakaði þessar jólasveinamöffins fyrst fyrir jólin 2011 en ég bjó uppskriftina til upp úr tveimur öðrum sem ég sá að gætu komið vel út saman,“ segir Unnur Anna Árnadóttir, menntaskólanemi og kökubloggari en hún heldur úti kökublogginu Cakesofparadise.wordpress.com.

Agnes Heiða Skúladóttir, móðir Unnar, tekur myndirnar á bloggsíðunni og saman segir Unnur þær gott teymi í eldhúsinu.

„Við mamma bökum mjög mikið fyrir jólin og erum alltaf að prófa eitthvað nýtt. Þó eru nokkrar tegundir sem við bökum fyrir hver jól, það eru lakkrístoppar og speglakökur, sem eru kexbotn með marengskremi eins og dropa ofan á, og svo bökum við alltaf piparkökur og piparkökuhús. Við fyllum yfirleitt marga kökubauka,“ segir Unnur og viðurkennir að vera mikið jólabarn.

„Ég er algjört jólabarn. Ég vil helst vera búin að skreyta allt um miðjan nóvember,“ segir hún hlæjandi. „Ég bý hjá mömmu og pabba og þau leyfa mér alveg að skreyta svona snemma. Ég er yfirleitt búin að skreyta allt fyrir afmælið hans pabba, 23. nóvember. Við mamma erum líka alltaf búnar að baka svolítið af smákökum fyrir afmælið. Eftir það byrjum við svo á fullu og bökum alla aðventuna.“

Uppskriftina bjó Unnur til upp úr tveimur uppskriftum sem henni fannst passa vel saman.mynd/agnes heiða skúladóttir
Jólasveinamöffins



Möffins

1¾ bolli hveiti

1½ bolli sykur

100 g smjörlíki

2 egg

1/3 bolli kakó

1 bolli súrmjólk

1 tsk. natron

1½ tsk. vanilludropar

Sykur og smjörlíki hrært saman.

Einu eggi í einu bætt út í og hrært aðeins á milli. Vanilludropum bætt út í og hrært vel. Þurrefnum bætt út í ásamt súrmjólkinni og blandað aðeins saman. Sett í lítil (minni en þessi venjulegu) möffinsform. Bakað við 180°C í 10-15 mín.

Jólasveinamuffins er fallegt að bjóða gestum upp á á aðventunni.
Kremið 

1 bolli síróp

4 msk. sykur

2 stífþeyttar eggjahvítur

1 bolli af sírópi og 4 msk. af sykri sett í pott og brætt. Á meðan blandan bráðnar eru eggjahvíturnar stífþeyttar. Sykurblöndunni er svo bætt út í eggjahvíturnar í mjórri bunu og hrært þar til kremið verður þykkt. Svo er kreminu sprautað á möffinsið, jarðarberi á hvolfi bætt ofan á og svo er aftur sprautað kremi til að gera dúskinn.






×