Handbolti

"Geiri“ er vanmetnasti leikmaður liðsins

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Það verður mikil ábyrgð lögð á herðar Ásgeirs Arnar á spáni í janúar. fréttablaðið/stefán
Það verður mikil ábyrgð lögð á herðar Ásgeirs Arnar á spáni í janúar. fréttablaðið/stefán
Ásgeir Örn Hallgrímsson verður í stóru hlutverki hjá íslenska landsliðinu í handknattleik á heimsmeistaramótinu sem hefst um næstu helgi á Spáni.  Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði landsliðsins, hrósar Ásgeiri fyrir framlag sitt í landsliðinu á undanförnum árum og telur Guðjón að Ásgeir sé vanmetnasti leikmaður liðsins. „Geiri" hefur leyst sitt hlutverk með Alexander Petersson og Ólaf Stefánsson fyrir framan sig í „goggunarröðinni".

„Hann hefur aldrei kvartað yfir þessu hlutverki, þrátt fyrir að hann sé stundum að spila í 5 mínútur og aðra leiki í 50 mínútur. Hann tekur að sér sitt hlutverk og leysir það. Hann er að mínu mati einn vanmetnasti leikmaður liðsins á undanförnum árum. Hann er núna í öðru hlutverki og þarf að axla meiri ábyrgð, og taka að sér það hlutverk að aðstoða yngri leikmennina sem eru að taka við hans hlutverki.

Þetta er sérstakur tími en jafnframt skemmtilegur, nýir leikmenn sem eru með sína styrkleika og hæfileika, og við þurfum að nýta þá sem best," bætti Guðjón við en hann er sáttur við breytt keppnisfyrirkomulag á HM.

„Það er gott að vera laus við milliriðlana – ég hef aldrei þolað þessa milliriðla. Eftir riðlakeppnina á HM eru bara bikarúrslitaleikir og ég held að það sé fín pressa fyrir liðið. Við höfum oft sýnt okkar bestu leiki þegar við erum með ískalt byssuhlaupið upp við hnakkann," sagði Guðjón Valur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×