Viðskipti innlent

600 herbergi í tveimur nýjum hótelum

Nýja hótelið á að rísa við Höfðatorg í Borgartúni.
Nýja hótelið á að rísa við Höfðatorg í Borgartúni.
Stærsta hótels landsins á að rísa á Höfðatorgi við Borgartún í Reykjavík og kaupsamningur á lóð undir glæsihótel við Hörpu verður undirritaður fyrir helgi. Herbergjafjöldinn á þessum tveimur nýju hótelum verður á við rúmlega tvær Hótel Sögur.

Íslandsbanki spilar lykilhlutverk í uppbyggingunni á Höfðatorgi og er ráðgert að hótelið verði upp á 16 hæðir með liðlega 340 herbergjum. Indverskir og íslenskir fjárfestar ætla að byggja upp 250 herbergja lúxushótel. Verkefnið hefur verið í undirbúningi síðan árið 2010, en jarðvegsvinna er þegar hafin.

Eins og fréttastofa 365 greindi nýverið frá mun fjárfestingafélag væntanlega undirrita kaupsamning á lóð undir stórt glæsihótel í grennd við tónlistarhúsið Hörpuna nú í vikunni. Það hyllir því undir að hótelherbergjum í borginni, vegna byggingar þessara tveggja hótela, muni fjölga um 500 á næstu misserum.

Árni Gunnarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, óttast samt ekki offramboð. "Miðað við þróunina, eins og hún hefur verið, hefur verið gríðarleg fjölgun í komum erlendra ferðamanna til landsins," segir Árni en hótelið á Höfðatorgi verður 4 stjörnu. "Ég held að þetta sé góð þróun að við séum að bjóða upp á gistingu í betri kantinum. Við viljum laða til okkar ferðamenn sem eru tilbúnir að borga vel og gera vel við sig í annarri afþreyingu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×