Viðskipti innlent

Verslunarkeðja í eigu þrotabús Landsbankans skráð á markað

Lovísa Eiríksdóttir skrifar
House of Fraser var áður í eigu Baugs, en slitastjórn Landsbankans eignaðist um þriðjungs hlut í félaginu þegar Baugur fór í þrot árið 2009.
House of Fraser var áður í eigu Baugs, en slitastjórn Landsbankans eignaðist um þriðjungs hlut í félaginu þegar Baugur fór í þrot árið 2009. Mynd/AP
Stjórnendur skosku verslunarkeðjunnar House of Fraser, sem er í þriðjungs eigu slitastjórnar Landsbankans, hafa ákveðið að skrá félagið á hlutabréfamarkað.

House of Fraser er ein þekktasta verslunarkeðja í Bretlandi og er metin á um 200 til 300 milljónir punda, eða sem nemur 37 til 56 milljörðum íslenskra króna.

Íslenska fyrirtækið Baugur, keypti verslunina árið 2006 fyrir um 350 milljónir punda, eða sem nemur 66 milljörðum króna, en Baugur missti hlut sinn í keðjunni árið 2009 þegar fyrirtækið komst í þrot. Í kjölfarið eignaðist þrotabú Landsbankans 33 prósenta hlut í versluninni.

Don McCarthy, stjórnarformaður verslunarkeðjunnar, átti frumkvæðið að skráningu félagsins, en hann á 20 prósenta hlut í félaginu.

House of Fraser er ein þekktasta verslunarkeðja í Bretlandi og í dag rekur keðjan 61 verslun og er með um 7000 starfsfólk í vinnu.

Verslunin var stofnuð í Glasgow árið 1849 og var áður skráð á hlutabréfamarkað árið 1948. Félagið var hinsvegar afskráð úr kauphöll árið 1985 þegar egypsku auðmaðurinn Mohamed al-Fayed festi kaup á keðjunna. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×