Handbolti

Björgvin Páll stoppaði Ljónin í lokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gustavsson.
Björgvin Páll Gustavsson. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Rhein-Neckar Löwen tapaði dýrmætu stigi á útivelli á móti SC Magdeburg í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag og TV Grosswallstadt tapaði á sama tíma í gríðarlega mikilvægum leik í fallbaráttunni.

Rhein-Neckar Löwen liðið átti möguleika á því að minnka forskot Kiel í tvö stig í dag en varð að sætta sig við 20-20 jafntefli á móti Björgvini Páli Gústavssyni og félögum í Magdeburg.

Björgvin Páll Gústavsson varði síðasta skot leiksins frá Andy Schmid og tryggði sínu liði eitt stig en í sókninni áður hafði Stefán Rafn Sigurmannsson jafnaði metin fyrir Löwen með sínu eina marki í leiknum.

Alexander Petersson var markahæstur hjá Löwen með sex mörk en þetta tapaða stig gæti verið dýrkeypt fyrir lærisveinana hans Guðmundar Guðmundssonar.

Rúnar Kárason skoraði sjö mörk og var markahæstur hjá Grosswallstadt þegar liðið tapaði 24-26 á útivelli á móti Minden í lykilleik í fallbaráttunni. Sverre Jakobsson spilaði í vörn Grosswallstadt. Grosswallstadt lagaði stöðuna í lokin með tveimur mörkum á síðustu mínútunni.

Grosswallstadt er nú í 17. og næstsíðasta sæti deildarinnar, sex stigum á eftir Minden, sem er í síðasta örugga sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×